Framkvæmdir á sementsreit hafnar
Í dag hófst jarðvinna á vegum Fastefli ehf. og þar með er uppbygging hafin á sementsreitnum. Má segja að þetta sé nokkuð merkileg tímamót enda aðdragandinn að uppbyggingu þessari umsvifamikill og margar hindranir hafa verið leystar. Gert er grein fyrir helstu vörðum þessa verkefnis á síðustu árum í meðfylgjandi samantekt.
Á þessum rúmu 8 árum sem liðin eru síðan Akraneskaupstaður eignaðist landið á Sementreitnum þá hefur undirbúningurinn á þessu umfangsmikla verki verið á höndum þriggja bæjarstjórna og mun sú fjórða sjá um uppbygginguna.
27.desember 2013 eignaðist Akraneskaupstaður 5,5 hektara af 7 hektara athafnasvæði Sementsverksmiðjunnar og mikilli óvissu var eytt um framtíð svæðisins. Í því fólst einnig að sá hluti reitsins sem nú er nýttur til sementsinnflutnings, gengi án endurgjalds til Akraneskaupstaðar sem þá eignast þær eignir árið 2028.
Efnt var til opins íbúafundar í ársbyrjun 2014 um framtíðarnýtingu Sementsreitsins og bæjarráð setti starfshóp til að fjalla um framhaldið. Óskað var eftir rammatillögum að skipulagi og voru tillögur þriggja arkitektastofa kynntar íbúum á fundi í október 2015.
26.febrúar 2016 var samið við Ask arkitekta um að deiliskipuleggja Sementreitinn en þeir voru hlutskarpastir á þessum vettvangi.
Fjölmennur kynningarfundur fór fram 16. febrúar 2017 þar sem formaður starfshóps um uppbyggingu á Sementsreit stýrði fundi og var skipulagið kynnt en auk Rakelar Óskarsdóttur skipuðu Dagný Jónsdóttir og Bjarnheiður Hallsdóttir starfshópinn.
25.apríl 2017 var auglýst tillaga að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi þar sem iðnaðarsvæði var breytt í lóðir fyrir íbúðir, verslun og þjónustu.
25.október 2017 var gengið til samninga við Work North sem átti lægsta tilboðið í niðurrif á Sementsverksmiðjunni og lauk því í júní 2019 og var heildarkostnaður um 290 milljónir króna en kostnaðaráætlun var 438 milljónir króna. Niðurrif strompsins var inn í því sem gerir 66,2% af áætluðum kostnaði.
25.júní 2018 var gerð tillaga af bæjarráði um niðurrif á Sementsstrompinum eftir að íbúakosning hafði farið fram þar sem 1095 íbúar nýttu rétt sinn til að kjósa 94,25% bæjarbúa voru sammála um að strompurinn yrði felldur og 5,75% íbúa kusu að strompurinn ætti að vera áfram. Strompurinn var svo felldur 22. mars 2019.
25.maí 2020 var samið við Borgarverk um endurgerð á Faxabrautinni og grjótvörn meðfram henni en tilboð þeirra var upp á 467 mkr eða 87,9% af kostnaðaráætlun. Verkefnið var samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Akraneskaupstaðar, Veitna og Mílu og hófst verkið í september 2020. Hafði bæjarstjóri og bæjarstjórn beitt sér víða og fékk duglegan stuðning margra þingmanna NV kjördæmis um þetta sanngirnismál og vannst mikill sigur í febrúar 2019 er þetta náði inn í samgönguáætlun og fjárlög skömmu síðar.
Auk þess hafa Veitur farið í verulega uppbyggingu sem nær til Faxatorgs en það hefur haft í för með sér nokkra lokun um mikilvæga samgönguleið bæjarins en það eru nauðsynlegir innviðir fyrir Sementsreitinn í þeirri framkvæmd.
27.janúar 2021 opnuðum við úthlutunarvef atvinnu- og íbúðalóða 300akranes.is þar sem mátti sjá allar upplýsingar um Sementsreitinn.
27.desember 2021 voru opnuð útboð á uppbyggingareit C og D og var tilboð Fasteflis ehf. best þar sem þeir hlutu 97 stig af 100 mögulegum en næsti aðili fékk 67 stig. Verð gilti 60 stig þar sem Fastefli fékk fullt hús stiga og fékk 37 stig af 40 mögulegum í útliti og gæðum. Umsögn matsnefndar um vinningstillöguna var: „Tillagan er fallega unnin, spennandi og gefur góð fyrirheit um áframhaldandi byggð á Sementsreit. Framsetningin er góð. Vel er unnið með staðaranda og leitast við að tengja útlit við byggð í bænum. Uppbrot og efnisnotkun er skemmtileg með tilvísanir í nærumhverfi og þekktar byggingar. Kennileiti mættu vera meira afgerandi. Lóðin er áhugaverð og lífleg. Útgangur úr bílakjallara í miðjan garð virkjar lóðina og örvar samfélagsleg tengsl. Jákvætt er að bílakjallari sé ekki undir allri lóð og „jarðsamband“ náist í miðjum garði þar sem að hægt er að koma fyrir stórum trjám. Blágrænar ofanvatnslausnir á lóð og Svansvottun er jákvætt. Hugmynd að blöndun á sérbýli og fjölbýli með mismunandi húsgerðum gengur vel upp og gæði íbúða er góð.“
27.mars 2022 samþykkti bæjarráð að gengið yrði frá formlegum samningi við Fastefli ehf. um uppbygginguna sem var gert daginn eftir, fyrsta skóflustunga var tekin 19. mars og nú eru framkvæmdir hafnar.