Fara í efni  

Guðlaug valin í norrænt samstarfsverkefni á sviði sjálfbærni

Guðlaug er meðal þeirra verkefna sem valnefnd valdi til þátttöku í norræna samstarfsverkefninu Nordic Sustainable Cities sem hleypt var á stokkinn vorið 2019. Um er að ræða samstarfsverkefni hönnunar og arkitektamiðstöðva á Norðurlöndum: ArchInfo í Finnlandi, ArkDes & Form/Design Center í Svíþjóð, DAC - Danish Architecture Center, DOGA - Design & Architecture Norway og Hönnunarmiðstöð Íslands. Verkefnið er styrkt af Nordisk innovation. Markmið verkefnisins var að draga fram áhugaverð og góð verkefni sem mótuð hafa verið á Norðurlöndunum um norrænar sjálfbærar lausnir í manngerðu umhverfi og sýnir dæmi um leiðir til að auka lífsgæði, efla mannlíf og bæta umhverfið.

Hverju landi var boðið að senda inn fimm tillögur/verkefni sem myndu flokkast inn í eftirfarandi flokka: Circular Economy City, Healthy City, Low Carbon City, Mobility City og Resilient City. Skipað var í fag- og valnefnd fyrir verkefnið en í henni sátu Edda Ívarsdóttir (Reykjavíkurborg), Þráinn Leifsson (FÍLA), Dagný Bjarnadóttir (FÍLA), Páll Gunnlaugsson (AÍ), Jón Ólafur Ólafsson (SAMARK) og Kristján Örn Kjartansson (Hönnunarmiðstöð). Skemmtilegar og góðar umræður áttu sér stað hjá fag- og valnefnd í kjölfarið en eftir yfirlegu og fundahöld, þá var niðurstaðan eftirfarandi:

Circular Economy City-Upphitun gatna
Reykjavíkurborg hefur endurnýtt heitavatnið í áratugi sem rennur í gegnum húsin okkar og leitt það inn í gatnakerfið, göngu- og hjólastíga sem og umferðargötur. Upphitaðar götur festa ekki snjó og ís og því mikið öryggisatriði á veturnar, fyrir gangandi, hjólandi og akandi vegfarendur. Einnig sparast þarna söltun eða söndum á götum og sá óþrifnaður sem hlýst af því.

Healthy City-Guðlaug
Íslensk sundmenning á sér fáa líka. Þar sameinast lýðheilsa, torgamenning og samvera. Akranesbær hefur tekist að skapa nýtt aðdráttarafl með Guðlaugu, heitri náttúrulaug við Langasand. Guðlaug er hönnuð af Basalt arkitektum og er vatnið fengið frá Deildartunguhver. Þar fá bæði heimamenn sem og ferðamenn að njóta útsýnis, heitrar laugar sem og möguleika á að synda í sjónum. Guðlaug er opin allt árið um kring og er hún gjaldfrjáls.

Low Carbon City-Lifandi landslag C40
Lifandi landslag er framtíðarverkefni unnið fyrir samkeppnina C40 Reinventing Cities en höfundar verkefnisins eru Jakob+Macfarlane. T.ark, Landslagi, Eflu, Heild og Upphafi.Lifandi landslag er kolefnishlutlaus bygging með blandað notkunargildi sem er hönnuð með vistvæn gildi að leiðarljósi. Byggingin er nútímaleg og náttúruvæn í háum gæðum, með góðri innivist og mjög lágri orkunotkun. Lifandi landslag verður stærsta timburbygging landsins, staðsett, við Malarhöfða í Ártúni. 

Mobility City-Borgarlínan
Borgarlínan er leið borgarinnar til að ná markmiðum sínum sem er kolefnisjafnvægi árið 2040. Borgarlínan er almenningsvagnakerfi þar sem ferðir eru tíðar, á forgangsakrein, og ná yfir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.  Vagnarnir eru að sjálfsögðu knúnir umhverfisvænum orkugjöfum. Með Borgarlínunni er stefnan tekin á að minnka bílaflotann í borginni um 300% fyrir árið 2030.

Resilient City-Votlendi
Reykjavíkurborg hefur unnið að endurheimt votlendis í Úlfarsárdal, skv. aðalskipulagi borgarinnar. Alls voru 87 hektrar af svæði teknir undir verkefnið en endurheimt votlendis er talið hafa hamlandi áhrif á loftslagsbreytingar, þar sem votlendi bindur kolefni auk þess sem það skapar grundvöll fyrir aukinn líffræðilegan fjölbreytileika.

Sýningin Nordic Sustainable Citites er sýning í rafrænu formi sem sýnir lausnir Norrænna borga við þeim vandamálum sem heimurinn er að glíma við. Hvert og eitt þema sýningarinnar tengist sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (UN17) með beinum eða óbeinum hætti en það er besti mögulegi ramminn til að vinna með í átt að sjálfbærni í dag. Sýningin er aðgengileg í gegnum utanríkisráðuneyti Danmerkur, Svíþjóð, Noregs, Finnlands, Íslands og í gegnum norræna nýsköpun og er hugsuð til næstu fimm ára. Nánari upplýsingar má finna hér. Sýningin verður sett upp á HönnunarMars 2020 og verður síðan sett upp á Akranesi í framhaldinu.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00