Íbúar beðnir um að fara sparlega með heita vatnið
Í óveðrinu sem fór yfir landið í þessari viku kom upp bilun í Deildartunguæð sem flytur okkur heita vatnið frá Deildartunguhver. Sökum þess er lág birgðarstaða í heitavatnstönkum á Akranesi. Ekki bætti það síðan ástandið að upp komu rafmagnstruflanir þannig að erfitt hefur reynst að dæla í tankana af fullum krafti.
Vegna þessa mun víða vera skortur á heitu vatni og Veitur fara þess nú á leit við íbúa Akraneskaupstaðar að fara vel með heita vatnið, minnka notkun heitra potta, hafa glugga lokaða og dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur. Þá hefur Akraneskaupstaður tekið þá ákvörðun að sundlaugar á Akranesi, Jaðarsbakkalaug, Bjarnalaug og Guðlaug, verða lokaðar a.m.k. fram yfir helgi eða þar til Veitur gefa grænt ljós í opnun þeirra aftur.
Við þökkum Veitum við gott upplýsingaflæði í gegnum facebooksíðuna „Ég er íbúi á Akranesi" og hvetjum fólk jafnframt til þess að deila þessari frétt sem víðast þannig að upplýsingastreymið verði sem best.