Jólaleg helgi framundan á Akranesi
Þrátt fyrir kólnandi veður um helgina verður nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna á Akranesi
Jólatónleikar í Akranesvita
Ljúfir jólatónar Jónu Öllu Axelsdóttur við undirleik Edgars Gylfa Skaale Hjaltasonar verða í Akranesvita kl. 14:00 laugardaginn 14. desember. Aðgangur ókeypis.
Jólaævintýri í Garðalundi
Sannkölluð jólagleði verður í Garðalundi laugardagskvöldið 14. desember þar sem ævintýraheimur jólanna mun ráða ríkjum. Dagskráin hefst klukkan 19:00 þegar kveikt verður á ljósunum hans Gutta, til minningar um Guðbjart Hannesson.
Jólagleði í Garðalundi var fyrst haldin fyrir jólin 2016 og hefur þátttaka bæjarbúa verið framar björtustu vonum. Hugmyndin með Jólagleði í Garðalundi er að fara út eftir kvöldmat með vasaljós sem getur verið mjög spennandi í hugum litla fólksins. Margvíslegum ævintýraheimum verður komið fyrir um alla skógrækt þannig að fólk getur rölt um og séð fjöldann allan af fígúrum á sveimi. Það er aldrei að vita hvað gæti gerst. Foreldrar eru hvattir til að klæða sig og börnin vel til útivistar og undirbúa ímyndunarafl allrar fjölskyldunnar.
Jólasýning FIMA
Jólasýning fimleikafélags Akraness verður haldin þann 15 desember í Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Þemað í ár er Tröllið sem stal jólunum. Sýningarnar verða klukkan 12 og 14 en miðasalan hefst samdægurs klukkan 10 sunnudaginn 15 des í íþróttahúsinu. Miðaverð er 1500 kr fyrir fullorðna og 500 kr fyrir 6-12 ára. Það er aðeins er tekið við peningum. Enginn posi á staðnum.
Fjölskyldutími með jólaívafi hjá Smiðjuloftinu
Mætum myrkrinu saman í notalegri fjölskyldustemmningu á Smiðjuloftinu. Opið fyrir klifrara frá kl. 14-16.
Jólatrjáasala Skógræktarfélags Akraness
Jólatrjáasala Skógræktarfélags Akraness verður í Slögu sunnudagana 15. des. og 22. des. 2019 kl. 12 - 15. Sjá nánar hér.
Verslum í heimabyggð
Verslanir á Akranesi lengja opnunartíma um helgina og er því tilvalið að klára jólainnkaupin í heimabyggð!