Jólalegt við Akratorg - ný jólaljós og ljósalistaverk
Í ár kveikir Akraneskaupstaður á nýjum jólaljósum við miðbæjartorg Akraness. Um er að ræða jólaljós sem sett hafa verið á Landsbankahúsið svokallaða, trjágreinar í kringum Akratorg og nýtt ljósaverk sem staðsett er á grasbletti við hlið torgsins. Starfsmenn áhaldahús bæjarins hafa haft í nógu að snúast síðustu daga við uppsetningu á nýju ljósunum en þau koma frá fyrirtækinu Garðlist.
Nýja ljósaverkið minnir bæjarbúa á ástæðu þess af hverju byggð reis hér á þessum skaga. Frá fornöld hefur verið verstöð og útræði hér, ekki aðeins heimamanna því einnig gerðu héðan út menn víðs vegar af landinu og gekk bærinn um langt skeið undir nafninu Skipaskagi. Sjávarútvegur var aðalatvinnugrein okkar Skagamanna langt fram að þúsaldamótum og hefur haft mótandi áhrif á samfélagið og menninguna hér í bæ. Því er vel við hæfi að minnast þess um aðventu og jól með upplýstu akkeri mitt á milli hafnarinnar og sjómannsins á Akratorgi.