Jólaljósin á Akratorgi tendruð
Margt var um manninn á Akratorgi síðast liðinn laugardag þegar jólaljósin á Akratorgi voru tendruð við hátíðlega athöfn. Skólakór skipaður yngri nemendum Grundaskóla hóf athöfnina með flutningi á nokkrum jólasöngvum undir stjórn Valgerðar Jónsdóttur.
Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar, aðstoðaði Viktor Óttar Guðmundsson við að kveikja ljósin á jólatrénu en Viktor átti einmitt 5 ára afmæli sama dag. Jólatréið sem prýðir torgið í ár var gróðursett í landi Stóru-Fellsaxlar norðan megin við Akrafjall.
Eftir að ljósin á trénu voru kveikt tók Samúel Þorsteinsson nokkur vel valin jólalög og fljótlega birtust nokkrir þrælviltir jólasveinar sem virtust ekki alveg átta sig á því að þeirra tími væri ekki kominn. Þeir létu það ekki á sig fá og tóku nokkur lög með mannfjöldanum og laumuðu mandarínum í lófa barnanna áður en þeir hurfu aftur á braut.
Hér má sjá svipmyndir frá hátíðahöldunum sem Myndsmiðjan fangaði.