Fara í efni  

Jólasveinninn fannst í Garðalundi

Ljósin hans Gutta. Ljósmynd: Jónas Ottósson.
Ljósin hans Gutta. Ljósmynd: Jónas Ottósson.

Síðastliðið föstudagskvöld leituðu fjölmargir bæjarbúar að jólasveininum í skógrækt Akurnesinga í Garðalundi. Það voru mæðgurnar Margrét og Sara Blöndal ásamt Hlédísi Sveinsdóttur sem stóðu fyrir og undirbjuggu viðburðinn og fengu Akraneskaupstað, Grundaskóla, Brekkubæjarskóla og Íslandsbanka til liðs við sig.

Þátttakendur komu saman eftir kvöldmat við innganginn að skógræktarsvæðinu og voru vopnaðir vasaljósum. Markmiðið var að finna jólasveininn og hugsanlegar furðuverur sem áttu  samkvæmt áreiðanlegum heimildum að finnast í Garðalundi. Felix Bergson dagskrárgerðarmaður leiddi gönguna í gegnum svæðið og meðan á henni stóð kom bróðir hennar Grýlu  í leitirnar, Mikki refur, álfar, mýs, jólakötturinn og loksins, eftir töluverða leit, fannst jólasveinninn sjálfur.

Að lokum var kveikt á Ljósunum hans Gutta en það er samfélagsverkefni sem Hollvinir Grundaskóla, skólafólk á Akranesi og fleiri aðilar standa að í minningu um Guðbjart Hannesson, fyrrverandi skólastjóra Grundaskóla, bæjarfulltrúa, alþingismann og ráðherra. Ljósin munu loga  í Garðalundi á aðventunni. Viðburðurinn á föstudagskvöldið var afar vel sóttur og mátti telja á annað þúsund manns. Stefnt er að því að leitin að jólasveininum og lýsing í skóginum með ljósunum hans Gutta verði árlegur viðburður á aðventunni á Akranesi.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00