Kjör á íþróttamanneskju Akraness árið 2024
Þann 6. janúar næstkomandi verður tilkynnt um val á íþróttamanneskju Akraness árið 2024.
Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 27. desember til og með 2. janúar.
Hér má sjá kynningu á þeim sem eru tilnefnd:
Vélhjólaíþróttafélag Akraness
Aníta Hauksdóttir
Aníta Hauksdóttir er margfaldur meistari í sinni grein samanlagt er hún tífaldur meistari og valin akstursíþróttakona í fimmta sinn á ferlinum, er sönn fyrirmynd allra í motorsportinu. Hún keppti einnig í einni erfiðiustu keppni í heimi Roof of Africa í Lesotho, kláraði þar í heildarkeppni með bronze og í 3. sæti í kvk flokki. Hún er alltaf fyrst á staðinn í allt sjálfboðaliðastarf. Hefur alltaf verið harðdugleg að æfa allar hliðar sportsins. Stefnir ávallt á toppinn , alveg sama hvaða áföll dynja á, þá gefst hún aldrei upp. Aníta er alltaf með bros á vör, og er sannur liðsfélagi.
Hnefaleikafélag Akraness
Björn Jónatan Björnsson
Björn Jónatan hefur afrekað margt í hnefaleikum þrátt fyrir ungan aldur, bara á árinu sem er að líða hefur hann m.a. orðið sá fyrsti í sögu Akraness til þess að hljóta Gullmerki Hnefaleikasambands Íslands í Diplomahnefaleikum, orðið bikarmeistari bæði á vorönn og haustönn, unnið Íslandsmeistaramótið þar sem hann var hársbreidd frá því að vera valinn besti boxari mótsins, unnið 2 erlend mót og á öðru þeirra var hann valinn besti u-17 boxarinn. Jónatan er mjög agaður, metnaðarfullur, gríðarlega hjálpsamur og alltaf reiðubúinn til að aðstoða æfingafélaga sína auk þess sem hann hefur tekið virkan þátt í þjálfun yngri hópa hnefaleikafélagsins.
Badminton
Drífa Harðardóttir
Drífa er okkar fremsta badmintonkona á Íslandi, hún hefur alla tíð spilað fyrir ÍA á Íslandi en hún býr og æfir í Danmörku.
Drífa leggur áherslu á tvíliða- og tvenndarleik og spilar þær greinar með liði sínu í deildakeppni í Danmörku og einnig hér heima. Hún kom aftur inn í Íslenska landsliðið á árið 2024 og hefur staðið sig frábærlega.
Hún hefur orðið Íslandsmeistari 15 sinnum, 6 sinnum í tvíliðaleik og 9 sinnum í tvenndarleik.
Drífa er eina konan sem hefur orðið Íslandsmeistari í Meistaraflokki fyrir ÍA, hún er einnig sá badmintonspilari frá Íslandi sem hefur oftast orðið Heimsmeistari eldri spilara, 5 sinnum.
Drífa kemur reglulega til Íslands og kemur alltaf á æfingar hjá ÍA. Hún hvetur krakkana áfram og leiðbeinir þeim. Hún er góð fyrirmynd fyrir badmintonkrakka, innan vallar sem utan.
Sundfélag Akraness
Einar Margeir Ágústsson
Einar Margeir náði mjög góðum árangri á HM í Budapest þegar hann varð i 20. sæti í 100m fjórsundi á tímanum 54.36 þar sem hann synti á svo stóru móti í fyrsta sinn.
Einari sjálfum fannst hann getað synt hraðar á þessu móti ,var eins og skiljanlegt er spenntur fyrir sitt fyrsta sund á HM þar sem hann synti meðal bestu sundmönnum heims.
Einar keppti líka í 200m bringsundi og gerði sér litið fyrir og bætti sig og kom í mark á 2.09.97, og varð í 27. sæti. Einar er þar með yngsti Íslendingurinn til að fara undir 2.10 .
Íslenska liðið náði mjög góðum árangri og setti samtals fimm Íslandsmet og Einar Margeir var hluti af boðsundssveit sem setti íslandsmet en það var í 4x100 fjórsund blandaðri sveit en þar synti hann bringusundsprett á 57.95 sem er næst hraðasti tími sem Íslendingur hefur gert í boðsundi og 1,5 sekundur harðar en hans besti tími.
HM var mjög sterkt mót með keppendur frá öllum heiminum og á mótinu féllu 30 heimsmet.
Einar hefur keppt og synt mjög vel á árinu 2024 og því vel að tilnefningu kominn.
Kraftlyftingafélag Akraness
Einar Örn Guðnason
Einar á að baki glæsilegan feril innan kraftlyftinga sem spannar 15 ár í íþróttinni. Hann hefur landað 32 Íslands- og bikarmeistaratitlum í sínum þyngdarflokkum síðan 2011 að ótöldum stigabikurum. Hann hefur sett 77 Íslandsmet í heildina, yfir 3 þyngdarflokka, sem hafa þó einhver verið slegin í dag. Núna er þó komið að tímamótum hjá Einari þar sem hann hefur ákveðið að ljúka sínum keppnisferli eftir þetta ár.
Einar hefur verið aðal driffjöðrin hjá Kraftlyftingafélagi Akraness frá stofnun þess árið 2009 og er okkar reynslumesti kraftlyftingamaður. Hann hefur helgað sig íþróttinni í 15 ár og setið í stjórn og sinnt formennsku félagsins til fjölda ára.
Pílufélag Akraness
Gunnar Hafsteinn Ólafsson
Hann er borinn og barnfæddur Skagamaður og gengur undir nafninu Gunni Hó.
Hann byrjaði að kasta pílu fyrir ca 4 árum og hefur á þeim tíma náð nokkuð góðum árangri.
Td: fyrsta sæti í tvímenning á íslandsmóti félagsliða í desember 2023
Í byrjun árs 2024 var hann valinn í úrtakshóp íslenska landsliðsins í pílukasti.
Á íslandsmótinu í 501 náði hann inn í 16 manna úrslit.
Í vor tryggði hans sér þáttöku í úrvaldeildinni þar keppa 16 bestu pílukastarar lansdins og allt var sýnt beinni útsendingu á stöð2 sport.
Keilufélag Akraness
Ísak Birkir Sævarsson
Ísak Birkir skellti í sinn þriðja 300 leik, sem er fullkominn leikur, í janúar og eru fáir keilarar hérlendis sem geta státað sig af því. Ísak spilaði í beinni útsendingu á Stöð 2 sport í úrslitum í íslandsmeistaramóti einstaklinga þar sem hann lenti í öðru sæti.
Ísak fluttist búferflum til Svíþjóðar á árinu þar sem hann spilar með Höganäs BC en nýtir hvert tækifæri til að spila fyrir hönd ÍA þegar hann getur. Þess má geta að sænska deildin er gríðarsterk og á Ísak fullt erindi þangað.
Ísak var valinn til að keppa fyrir hönd u21 Íslands í Suður-Kóreu í júlí en Ísak varð tvítugur á árinu. Þar kom Ísak sér í 16 manna úrslit þar sem hann endaði í 9. sæti.
Íslandsmeistaramót í tvímenning fór fram í nóvember og gerði Ísak sér lítið fyrir og vann mótið ásamt vini sínum Mikael Aron.
Ísak hefur sýnt það og sannað að ástundun skilar árangri. Hann er frábær fyrirmynd og erum við í Keilufélagi Akraness stolt af því að tilnefna Ísak annað árið í röð, enda á hann það fyllilega skilið.
Karatefélag Akraness
Jacob Daniel Margrateuson,
Jacob er góð fyrirmynd fyrir aðra iðkendur í félaginu. Hann leggur mikinn metnað í íþróttina og keppnir. Hann varð í öðru sæti á Íslandsmeistaramóti unglinga í flokki 14 ára. Þá varð hann í 5. sæti í flokki 14 ára pilta á Grand Prix móti 1. Einnig vann hann innanfélagsmót KAK. Jacob er mjög efnilegur í Karate bæði í kata og kumite. Jacob meiddist í haust en hefur lagt mikla vinnu í það að koma sterkur til baka eftir meiðslin og það verður spennandi að sjá hann blómstra í íþróttinni á næstu árum.
Hestamannafélagið Dreyri
Jakob Svavar Sigurðsson
Jakob Svavar þarf ekki að kynna fyrir Skagamönnum, hann er magverðlaunaður knapi sem keppir ávalt undir merkjum ÍA.
Jakob Svavar er landsmótssigurvergari í töltkeppni árið 2024, þar sem hann sigraði örugglega og hlaut hann glæsieinkunn 9,39 og er þetta í fyrsta sinn sem Jakob Svavar sigrar töltkeppni á landsmóti. Nú á hann bara A-flokki eftir og eins og hann segir sjálfur „þegar því er lokið verður knapa ferilskráin fullkominn“.
Knattspyrnufélag ÍA Knattspyrnukona KFÍA
Madison Brooke Schwatzenberger
Madison Brooke var lykilleikmaður hjá liði ÍA í Lengjudeild kvenna í sumar. Madison stimplaði sig inn sem einn öflugasti leikmaður deildarinnar. Madison var valin besti leikmaður liðsins á lokahófi félagsins í október. Hún er kraftmikill og sterkur varnarsinnaður miðjumaður með góða tæknilega getu.
Fimleikafélag ÍA
Mattías Bjarmi Ómarsson
Mattías Bjarmi Ómarsson er 16 ára fimleikamaður sem hefur æft með Fimleikafélagi ÍA frá því hann var barn. Hann fór á síðasta tímabili á láni til Aftureldingar og æfði með blönduðu liði 1 flokks þar en er kominn aftur heim og æfir í dag með blönduðu liði meistaraflokks ÍA í efstu deild.
Mattías Bjarmi er fyrsti iðkandi Fimleikafélags ÍA til þess að komast alla leið í lokahóp í landsliðsvali Fimleikasambands Íslands fyrir Evrópumót. En hann var valinn í drengjalandslið Íslands (U18) í hópfimleikum í upphafi árs og keppti með liðinu á Evrópumótinu í Baku, Azerbajian, í október. Liðið komst í gegnum undanúrslit og hafnaði í 4 sæti á Evrópumótinu sem er besti árangur drengjalandsliðs Íslands til þessa. Mattías var lykilmaður liðsins í gólfæfingum en þar þykir hann bera af. Mattías er frábær liðsmaður, jákvæður og metnaðargjarn. Hann leggur sig ávallt allan fram en það hefur skilað honum þeim árangri sem hann hefur uppskorið á árinu. Umfram allt þetta er Mattías frábær fyrirmynd fyrir yngri drengi í fimleikum en þeir hafa aldrei verið fleiri á Akranesi en nú. Mattías er fimleikamaður ársins hjá Fimleikafélagi ÍA og má með sanni segja að hann sé vel að valinu kominn.
Knattspyrnufélagið Kári
Sigurjón Logi Bergþórsson
Sigurjón Logi er kraftmikill og áræðinn leikmaður sem leggur sig alltaf 100% fram í bæði æfingum og leikjum og frábær leiðtogi í liði Kára. Sigurjón sem var fyrirliði Kára í sumar fór einnig fyrir markaskorun liðsins þar sem hann skoraði 12 mörk í 20 leikjum í 3.deildinni og endaði fimmti markahæsti leikmaður deildarinnar. Sigurjón var að lokum valinn í lið ársins í 3.deildinni af öllum miðlum.
Körfuknattleiksfélag Akraness
Srdjan Stojanovic
Srdjan Stojanovic er frábær körfuboltaleikmaður og einn besti leikmaður 1.deildar á Íslandi enda þekktur fyrir að vera gríðarlega örugg skytta á vellinum. Srdjan skoraði yfir 21 stig að meðaltali fyrir ÍA á síðasta tímabili og er reynslumesti leikmaður liðsins, hann átti líka stóran þátt í að koma ÍA í úrslitakeppni á árinu í fyrsta sinn síðan 2016. Srdjan er góður liðsfélagi og mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins og var það mikil lukka fyrir körfuknattleiksfélagið þegar hann ákvað að koma á Akranes og leika körfubolta.
Golfklúbburinn Leynir
Tristan Freyr Traustason
Tristan Freyr Traustason átti flott tímabil þetta árið, hann var oftar en ekki að berjast um topp sætin á unglingamótaröð GSÍ og sýndi í flestum mótum að hann ætti heima í efstu sætunum. Tristan var eini kylfingur GL til að ná niðurskurði á Íslandsmótinu í golfi.
Tristan sýndi á liðnu ári að hann er góð fyrirmynd fyrir yngri kylfinga í kringum hann bæði á æfingum, auka æfingum og framkomu sinni innan sem utan vallar.
Knattspyrnufélag ÍA – knattspyrnumaður KFÍA
Viktor Jónsson
Viktor Jónsson var að klára sitt sjötta tímabil með ÍA og sprakk algjörlega út á liðnu tímabili með liðinu. Viktor var valinn besti leikmaður Knattspyrnufélags ÍA karla á lokahófi liðsins í oktbóer – liðið hafnaði í 5.sæti eftir að hafa komið upp í deild þeirra bestu sem nýliðar fyrir tímabilið. Hann skoraði 18 mörk og var markahæsti leikmaður deildarkeppninnar í sumar.