Læsisstefna leikskóla Akraneskaupstaðar
Læsisstefna leikskóla Akraneskaupstaðar var formlega kynnt á fundi skóla- og frístundaráðs þann 3. mars sl. Vinna við læsisstefnuna fór í gang 2017 og nú hefur afrakstur vinnunar litið dagsins ljós. Aðstoðar/sérkennslustjórar leikskólanna hafa haldið utan um verkefnið og notið stuðnings frá ýmsum aðilum, þetta eru þær Guðrún Bragadóttir, Vilborg Valgeirsdóttir, Ingunn Sveinsdóttir og Íris Sigurðardóttir ( sem kom inn á seinni hluta verkefnisins fyrir Valdísi Sigurðardóttur). Læsisstefnan er einföld í notkun, hefur að geyma miklar upplýsingar og er uppsetning hennar falleg. Hér er á ferðinni mjög fagleg og metnaðarfull læsisstefna.
Markmið læsisstefnunarinnar er að efla starfshætti leikskóla Akraneskaupstaðar með tilliti til undirritunar sáttmála um eflingu læsis. Efla málþroska og læsi í leikskólunum sem og að auka þekkingu starfsfólk á leiðum til þess. Samræma starfshætti og miðla þekkingu á milli leikskólanna. Auka þekkingu foreldra á þeirra hlutverki og hversu mikilvægir þátttakendur þeir eru í málörvun og lestrarnámi barna.
Læsisstefnan er handbók fyrir starfsfólk og foreldra. Einnig voru gefin út kynningarplaköt. Allir foreldrar barna í leikskólanum fá afhentan ísskápasegull sem hefur að geyma upplýsingar um stefnuna. Til að auðvelda aðgengi að stefnunni hefur verið búin til QR- kóði sem leiðir fólk beint á foreldrahluta læsisstefnunnar sem er á heimasíðu Akraneskaupstaðar. Hér er farið beint inn á læsisstefnuna.
Við óskum leikskólunum og verkefnastjórum til hamingju með læsisstefnuna sem og íbúum Akraneskaupstaðar.