Vökudagar vel heppnaðir
Vökudagar 2015 eru nú nýafstaðnir en þeir stóðu yfir í 11 daga, frá 29. október til 8. nóvember í þverrandi birtu haustsins. Alls voru um 65 viðburðir, þar á meðal 25 tónleikar, 13 myndlistarsýningar, sýningar leikskólanna og 5 skólasýningar, opin gallerí listamanna, ljósmyndasýningar, sögusýningar, námskeið og fyrirlestrar, rithöfundakvöld og markaður.
Tónlistarskólinn fagnaði 60 ára starfsafmæli á Vökudögum. Milli fimm- og sexhundruð manns sóttu viðburði í Tónlistarskólanum að því tilefni en boðið var upp á afmælisköku eins og vera ber auk fjölbreyttra og metnaðarfullra tónleika núverandi og fyrrverandi nemenda skólans.
Gera má ráð fyrir að um eða yfir fjögurhundruð manns hafi skipulagt viðburði á einn eða annan hátt. Að sjálfsögðu spilar þar inn í öflugt kórastarf sem margir taka þátt í og skólaverkefni eins og til dæmis Ungir/gamlir sem fjöldi fólks tekur þátt í að skipuleggja. Skagamenn og gestir þeirra eru líka mjög virkir í að sækja viðburði og oftar en ekki var fullt hús gesta á hvern viðburðinn á fætur öðrum. Um 4000 gestir sóttu viðburði heim á Vökudögum, sem er varlega áætlað. Óskum við Skagamönnum öllum til hamingju með vel heppnaða Vökudaga!