Menningar- og listahátíðin Vökudagar á Akranesi
Vakað í þverrandi birtu
Menningarhátíðin Vökudagar á Akranesi er nú haldin í þverrandi birtu haustsins. Vökudagar hafa unnið sér fastan sess í menningarlífi Skagamanna og gesta þeirra með afbragðs tónlist, myndlist, ljósmyndum og svo mætti lengi telja. Hátíðin verður haldin á Akranesi frá 28. október til og með 8. nóvember.
Tónlist í 60 ár
Í ár fögnum við 60 ára starfsafmæli Tónlistarskólans með glæsilegum tónleikum á sjálfan afmælisdaginn, þann 4. nóvember. Þar koma saman núverandi og fyrrverandi nemendur skólans, sem sjá alfarið um alla dagskrá þennan dag. Einnig verður bæjarbúum boðið upp á afmælistertu frá kl. 15.00.
Eitt fyrsta kventónskáld Íslands
Á Vökudögum verður í Bókasafni Akraness merk sýning og fyrirlestur um þrjár konur sem bjuggu í Kirkjuhvoli. Sú elsta, Kirstín Katrín Pétursdóttir Guðjohnsen (1850-1940) er höfundur elsta tónverks sem varðveist hefur á Íslandi. Auk Kirstínar er fjallað um dóttur hennar Valgerði Lárusdóttur Briem (1885-1924) og barnabarn Halldóru Valgerði Briem (1913-1993). Þær báru með sér arf tónlistar í söng og píanóleik úr uppeldi sínu og miðluðu þeim arfi til afkomenda. Sýningin kallast Lengi býr að fyrstu gerð, tónlistararfur frá Kirkjuhvoli, og opnar hún fimmtudaginn 29. október kl. 16.00 og er opnunaratriði Vökudaga 2015.
Una Margrét Jónsdóttir heldur síðan fyrirlestur um framlag þessara þriggja kvenna en hún hefur rannsakað framlag kvenna til tónlistararfs Íslendinga undanfarin misseri. Í nýlegri rannsókn Unu Margrétar kemur m.a. fram að þær, ásamt með öðrum konum, teljast frumkvöðlar í tónlist á sínu sviði sem tónskáld. Fyrirlestur Unu Margrétar verður laugardaginn 7. nóvember kl. 14.00 í Bókasafni Akraness. Tónlist eftir þessar þrjár konur verður flutt af nemendum Tónlistarskólans á Akranesi í útsetningum Páls Ragnars Pálssonar, afkomanda Kirstínar Katrínar og Valgerðar. Þetta eru meðal annars verkin Hulduljóð eftir Valgerði Lárusdóttur Briem og Færirðu heim að felli eftir Kirstínu Katrínu Pétursdóttur Guðjohnsen. Viðburðurinn er styrktur af Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningarétt kvenna.
Bæjarlistamaður opnar sýningu
Gyða Jónsdóttir bæjarlistamaður Akraness árið 2015 verður með sýningu ásamt Drífu Gústafsdóttur og Elsu Maríu Guðlaugsdóttur á Vökudögum. Þær eru allar með vinnuaðstöðu í Samsteypunni, gömlu Sementsverksmiðjunni. Sýningin kallast Samspil og opnar í Tónlistarskólanum fimmtudaginn, 29. október kl. 19.00. Í framhaldi af opnuninni kl. 20.00 verða tónleikar í Tónbergi í boði Gyðu, þar sem vinir Gyðu leika, en það eru; Haukur Guðlaugsson, Gunnar Kvaran, Guðný Guðmundsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson og Björg Þórhallsdóttir. Allir velkomnir, frítt inn.
Klassík og kræsingar í Vinaminni
Kalman listafélag býður upp á Kammertónleika með tónlist sem samin var í byrjun 19. aldar og heyrist sjaldan. Fyrir tónleika gefst tónleikagestum tækifæri á að gæða sér á sérbökuðu bakkelsi frá þessu tímabili í tónlistarsögunni. Tónleikarnir verða í Vinaminni, safnaðarheimilinu, laugardaginn 31. október kl. 16.00. Hér eru nánari upplýsingar um viðburðinn
Samsteypan, algjör steypa
Fyrir nokkru var hefðbundinni starfsemi hætt í Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Þar hafa hins vegar komið sér vel fyrir nokkrir listamenn sem verða með opnar vinnustofur á svæði sem þau kalla Samsteypuna. Samsteypan var stofnuð formlega í júní á þessu ári en helsta markmið hópsins er meðal annars að veita listafólki á Akranesi tækifæri og aðstöðu til að vinna að listsköpun sinni og að efla og auðga menningarlíf í bænum. Samsteypan verður opin og hægt verður að sjá listamenn við vinnu sína laugardaginn 31. október kl. 13.00 - 16.00. Hér eru nánari upplýsingar um Samsteypuna.
Rithöfundakvöldið Skjálfhent sogum við sögur úr sjó
Skagakonan Sigurbjörg Þrastardóttir stýrir að venju dagskrá rithöfundakvölds í Bókasafni Akraness. Þar munu stíga á stokk þau Auður Jónsdóttir sem les úr bók sinni Stóri skjálfti og Egill Ólafsson sem les úr glóðvolgri bók sinni Egils sögur. Auk þeirra þau Hallgrímur Helgason sem kynnir bók sína Sjóveikur í München og Yrsa Sigurðardóttir sem les úr bókinni Sogið. Anna Lára Steindal les úr nýrri bók sinni Undir fíkjutré og Brynja Einarsdóttir les úr ljóðabók sinni Sólarlag sem kom út fyrr á þessu ári. Þær eru báðar Skagakonur. Rithöfundakvöldið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og verður í Bókasafni Akraness þann 2. nóvember kl. 20.00.
Stofutónleikar í Haraldarhúsi
Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Haraldur Sturlaugsson opna heimili sitt að Vesturgötu 32 fyrir stofutónleika. Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópransöngkona og Birgir Þórisson, píanóleikari koma fram í stofunni í Haraldarhúsi og flytja tónlist eftir Edvard Grieg og Kurt Weill í bland við íslensk dægurlög. Tónleikarnir taka um 40 mínútur. Hugmyndin er að flytja fallega og skemmtilega tónlist í heimilislegu umhverfi þar sem nándin við listamennina spilar stóran hlut. Tónleikarnir verða sunnudaginn 1. nóvember kl. 14.00 að Vesturgötu 32.
100 ára Svanir
Karlakórinn Svanir á Akranesi á sér hundrað ára sögu, með hléum þó. Kórinn var endurvakinn fyrir þremur árum og stjórnandi hans í dag er Valgerður Jónsdóttir. Kórinn ætlar að halda upp á 100 ára afmælið með tónleikum í Grundaskóla 6. nóvember næstkomandi. Hljómsveitin Dúmbó og Steini ætla að taka nokkur lög með kórnum.
Sindri Víðir skipuleggur stórtónleika
Tónleikar sem eru haldnir að frumkvæði Sindra Víðis Einarssonar, starfsmanns Fjöliðjunnar sem er starfsþjálfun fyrir fatlaða einstaklinga á Akranesi verða haldnir í gamla ÞÞÞ húsinu, Dalbraut 6. Sindri fékk sjálfur leyfi hjá bæjarstjóra til að nota húsið fyrir tónleika á Vökudögum. Fram kemur ungt efnilegt tónlistarfólk ásamt reynsluboltum. Tónleikarnir verða föstudagskvöldið 6. nóvember kl. 20.30.
Dagskráin í ár er afar fjölbreytt og ættu flestir að finna viðburði við sitt hæfi, enda boðið upp á ríflega fimmtíu viðburði á Akranesi þessa tólf daga sem Vökudagar standa. Það væri ekki hægt nema vegna þess að Skagamenn eru bæði afar duglegir að standa að viðburðum á Vökudögum og eins að mæta á þá sem er að sjálfsögðu ekki síður mikilvægt.