Fara í efni  

Menningar- og safnamál sameinuð

Ljósmynd tekin við opnun sýningarinnar Saga líknandi handa sem er til sýningar í Guðnýjarstofu í Byg…
Ljósmynd tekin við opnun sýningarinnar Saga líknandi handa sem er til sýningar í Guðnýjarstofu í Byggðasafninu í Görðum.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 10. september síðastliðinn að sameina söfn og menningarmál á Akranesi í einn málaflokk og fela bæjarstjóra að undirbúa ráðningu forstöðumanns sem hafi yfirumsjón með málaflokknum. Markmið með sameiningunni er að auka samstarf sérfræðinga sem vinna á sviði minjavörslu, í skjalamálum og á ljósmyndasafni og efla þannig starfsemina. Undir verksvið forstöðumanns heyrir Bókasafn Akraness, sem hefur ákveðið sjálfstæði skv. lögum nr. 150/2012, Byggðasafnið í Görðum (minjasafn, steinasafn, íþróttasafn, Guðnýjarstofa og bátasafn), Héraðsskjalasafn Akraness og Ljósmyndasafn Akraness. Forstöðumaður hefur einnig yfirumsjón með listaverkasafni Akraness, undirbúning og eftirlit með samningum við einstaklinga og fyrirtæki á sviði menningar- og lista, s.s. vegna reksturs Bíóhallarinnar og starfsemi í Akranesvita, auk þess að hafa yfirumsjón með viðburðum og hátíðarhöldum á vegum Akraneskaupstaðar. Einnig verði skoðuð hagkvæmni þess að Tónberg, salur Tónlistarskóla Akraness heyri undir málaflokkinn.

Fastráðnum starfsmönnum verða boðin ný og breytt starfsheiti í samræmi við markmið með sameiningu málaflokksins. Staða verkefnisstjóra í menningarmálum og viðburðum verður lögð niður frá og með næstu áramótum og hálf staða bókavarðar á bókasafni. Þannig verði breytingin ekki til kostnaðarauka. Forstöðumaður verður með starfsstöð á byggðasafninu og í húsnæði safnanna að Dalbraut 1. Einnig samþykkti bæjarráð að breyta opnunartíma bókasafnsins frá áramótum en það verður opið alla virka daga frá kl. 12 til 18 og tvo morgna á viku er opið frá kl 10 til 12 vegna sögustunda fyrir börn annarsvegar og átthagastunda fyrir almenning hinsvegar. Opið verður á laugardögum yfir vetrartímann eins og nú er. Byggðasafnið verður lokað frá og með 1. október 2015 til 1. maí 2016 vegna endurnýjunar á sýningum. Safnaskálinn verði þó opinn til 31. desember 2015 vegna sýningar í Guðnýjarstofu. Þrátt fyrir lokun verður tekið á móti hópum á tímabilinu.

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00