Nýtt skip í Akraneshöfn
Föstudaginn 5. júní sl. var líflegt um að litast við Akraneshöfn en nýtt uppsjávarskip Bjarni Ólafsson AK 70 kom til hafnar þann dag. Það var útgerðarfyrirtækið Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi sem keypti fyrrnefnt skip frá útgerðinni Fiskeskjer í Noregi. Skipið var smíðað í Noregi árið 1999 og er 67,40 metrar á lengd og 13 metra breitt. Aðbúnaður um borð er mjög góður og skipið er búið fullkomnustu tækjum, m.a. fullkominni RVS kælingu. Af þessu tilefni fóru þau Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs í heimsókn og afhentu skipstjórunum, þeim bræðrum Runólfi og Gísla Runólfssonum blómvönd.
Sama dag kom kútterinn Westward Ho einnig til hafnar á Akranesi en kútterinn er í eigu Þórshafnar og er systurskip Kútters Sigurfara á Akranesi. Westward er smíðaður í Grimsby í Englandi árið 1884 og hafa Færeyingar haldið skipinu vel við öll þessi ár. Á laugardag var starfsfólki og stjórn Faxaflóahafna boðið að sigla með kútternum til Reykjavíkur ásamt bæjarstjóranum á Akranesi en í gegnum tíðina hafa verið góð tengsl á milli Akraness og Þórshafnar.