Nýtt skipurit Akraneskaupstaðar tók gildi þann 1. janúar 2021
Nýtt stjórnskipulag Akraneskaupstaðar var samþykkt á 1324. fundi bæjarstjórnar þann 15. desember og tók gildi þann 1. janúar síðastliðinn. Markmið breytinganna er að auka og bæta innri og ytri þjónustu Akraneskaupstaðar, auka skilvirkni í rekstri sveitarfélagsins með upplýsingatækni, skýrari verkferlum, stjórnun og öflugu starfsumhverfi.
Skrifstofa bæjarstjóra tekur til starfa
Meðal helstu breytinga voru þær stofnuð var ný eining sem ber heitir skrifstofa bæjarstjóra. Undir hana tilheyra eftirfarandi málaflokkar:
- Þjónusta og stafræn þróun ásamt skjalastýringu og miðlægri stýringu tölvu- og kerfismála. Þessi verkefni flytjast frá stjórnsýslu- og fjármálasviði ásamt tilheyrandi mannafla.
- Verkefnastofa þar sem áhersla er á uppbyggingu þverfaglegs samstarfs og samhæfingu í stýringu verkefna. Um er að ræða nýja deild innan skrifstofunnar sem er ætlað að fara fyrir teymisvinnu innan kaupstaðarins þvert á svið og starfsemi.
- Mannauðsmál þar sem nýr mannauðsstjóri gegnir forystu og stuðlar að eflingu málaflokksins þvert yfir starfsemi Akraneskaupstaðar.
- Atvinnuþróun og samstarf við þróunarfélög.
- Ferðamál þar sem haldið er utan um rekstur Akranesvita, Upplýsingamiðstöðvar og Guðlaugar.
- Markaðsmál þar sem viðburðahald og framleiðsla markaðs- og kynningarefnis fer fram.
- Menningar- og safnamál þar sem haldið er utan um rekstur byggða-, bóka-, ljósmynda- og héraðsskjalasafns.
Samhliða breytingunum hefur verið gengið frá ráðningu í fjögur störf hjá Akraneskaupstað en breytingarnar fela ekki í sér fjölgun starfsmanna þar sem framangreindar breytingarnar fela í sér tilfærslu á verkefnum.
Sædís Alexía Sigurmundsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu bæjarstjóra
Ný staða skrifstofustjóra varð til samhliða nýrri skrifstofu og tók Sædís Alexía Sigurmundsdóttir við stöðunni en áður gengdi hún starfi deildarstjóra á stjórnsýslu- og fjármálasviði. Sædís Alexía hefur starfar hjá Akraneskaupstað í að verða átta ár og hefur sinnt sambærilegum verkefnum á sviði þjónustu og stafrænnar þróunar ásamt atvinnu-, ferða- og markaðsmálum. Þá hefur hún stýrt þeim verkefnum ásamt fjölda annarra innan ólíkra sviða með farsælum hætti ásamt því að starfa í framkvæmdastjórn innan bæjarskrifstofunnar. Sædís Alexía er viðskiptalögfræðingur að mennt og með meistaragráðu í forystu og stjórnun með áherslu á verkefnastjórnun. Skrifstofustjóri gegnir forystu innan allra málaflokka innan skrifstofunnar fyrir utan mannauðsmál og verkefnastofu.
Ella María Gunnarsdóttir verkefnastjóri á verkefnastofu
Innan nýrrar einingar verður starfrækt verkefnastofa og hefur verið ráðinn inn verkefnastjóri til þess að leiða og skipuleggja þverfaglegt teymisstarf innan sveitarfélagsins. Ella María Gunnarsdóttir sem gegndi áður starfi forstöðumanns menningar- og safnamála hefur tekið við þeirri stöðu en hennar fyrra starf var lagt niður samhliða þessum stjórnkerfisbreytingum. Ella María hefur starfað hjá Akraneskaupstað frá árinu 2016 og sinnt verkefnum sem falla undir menningar- og safnamál. Ella María er með BS gráðu í viðskiptafræði ásamt meistaraprófi í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands og öðlaðist B-stig IPMA vottunar hjá Verkefnastjórnunarfélagi Íslands á árinu 2015. Starfsreynsla Ellu Maríu er fyrst og fremst mótuð út frá verkefnastjórnun en hún starfaði fyrir Arion banka í 15 ár, þar af lengst í verkefnastjórnun.
Harpa Hallsdóttir mannauðsstjóri
Akraneskaupstaður auglýsti í nóvember sl. starf mannauðsstjóra en slíkur hefur ekki verið starfandi hjá kaupstaðnum síðan árið 2012. Málaflokkurinn hafði frá þeim tíma verið hluti af starfi sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Ráðningu mannauðsstjóra lauk rétt fyrir áramót og hóf Harpa Hallsdóttir störf 7. janúar sl. Harpa lauk BA gráðu í spænsku með uppeldis- og menntunarfræði sem aukagrein. Hún lauk meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla árið 2005 og er að leggja lokahönd á viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Harpa hefur starfað hjá Kópavogsbæ frá 2011 sem mannauðsfulltrúi og mannauðsráðgjafi á stjórnsýslu- og umhverfissviði. Áður vann hún sem deildarstjóri starfsmannahalds hjá Tollstjóra og sérfræðingur hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Með skrifstofu bæjarstjóra er ætlunin að nútímavæða þjónustuferla og efla þjónustuhugsun meðal starfsfólks og innleiða þjónustumarkmið ásamt því að leysa mál með þjálfun starfsmanna í fyrstu snertingu og gegnir einingin frumkvæðishlutverki í stafrænni þróun sveitarfélagsins með það markmið að auka framleiðni og létta álagi á starfsfólk. Ætlunin er einnig ná fram betri nýtingu á mannauði svo öflugri samrekstur fáist á byggðasafni, vitasvæði og Guðlaugu. Þá er stefnt að ráðningu skjalastjóra á næstu mánuðum sem einnig mun gegna starfi persónuverndarfulltrúa.
Kristjana Helga Ólafsdóttir deildarstjóri fjármála
Stjórnkerfisbreytingarnar höfðu í för með sér endurskipulagningu og um leið styrkingum innan fjármáladeildar kaupstaðarins. Helstu breytingar þar voru að Steinar Adolfsson sviðsstjóri stjónsýslu- og fjármálasviðs hefur tekið við auknu hlutverki innan deildarinnar þar sem starf fjármálastjóra var lagt niður og einnig hefur Kristjana Helga Ólafsdóttir verkefnastjóri innan fjármáladeildar tekið við nýrri stöðu deildarstjóra fjármála og fengið aukið hlutverk við stærstu verkefni kaupstaðarins eins og ársreikningsgerð og fjárhagsáætlun. Kristjana Helga hefur unnið hjá Akraneskaupstað í rúmlega tvö ár og hefur þar að auki víðtæka og farsæla reynslu í fjármálum sveitarfélaga. Kristjana Helga er viðskiptafræðingur að mennt og með viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu. Einnig var samþykkt að ráða inn verkefnastjóra í deildina sem myndi m.a. hafa það hlutverk að styðja við hagstæðari innkaup og greiningar og nýtast vel heildarstarfsemi kaupstaðarins.
„Við förum jákvæð inn í nýtt ár og með tilhlökkun um að takast á við krefjandi og ný verkefni mörg hver. Með þessum breytingum er það okkar einlægja von að ná fram aukinni skilvirkni bæði í skipulagi og rekstri þannig að við náum að veita sem bestu mögulegu þjónustu til okkar nærsamfélags. Ég vil nota tækifærið og óska þessum fjórum öflugu konum til hamingju með nýtt starf. Það verður spennandi að starfa með þeim að eflingu á starfsemi Akraneskaupstaðar sem ég er sannfærður um að muni skila sér í enn öflugri þjónustu við íbúa og starfsmenn“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.