Tengjumst í leik.
Tengjumst í leik (e. Invest in play) er námskeið fyrir foreldra og forráðamenn barna þar sem áhersla er lögð á jákvæð samskipti og samveru foreldra og barna í gegnum leik. Með því myndast góð tengsl milli foreldra og barna og samband þeirra styrkist. Efni og innihald námskeiðsins er byggt á gagnreyndum aðferðum og rannsóknum á alþjóðlegum vettvangi.
Á námskeiðinu er foreldrum kenndar áhrifaríkar aðferðir sem auka sjálfsöryggi í uppeldishlutverkinu, ásamt því að stuðla að bættri núvitund og draga úr streitu, auka sjálfstjórn og skilning á eigin þörfum sem og þörfum barna sinna. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem eiga foreldra sem setið hafa námskeiðið öðlast aukið sjálfstraust, tilfinningalæsi og félags- og námsfærni. Foreldrafræðslan Tengjumst í hefur því margþættan ávinning fyrir börn, foreldra og samfélagið í heild. Hún stuðlar að aukinni sjálfstrú foreldra, betri samskiptahæfni barna og dregur úr áhættuhegðun barna og unglinga.
Markmið námskeiða er að valdefla foreldra í uppeldishlutverki sínu og efla um leið þjónustu við börn og foreldra. Á Akranesi er foreldrum leikskólabarna boðið að sækja námskeiðið.
Námskeiðið er 12 vikur, þar sem kennt er vikulega á þriðjudögum í tvær klst. í senn. Foreldrar fá handbók og æfingabók á íslensku, sem unnin er samhliða handleiðslu. Tveir leiðbeinendur frá leikskólum Akraneskaupstaðar halda utan um hvern hóp.
Akraneskaupstaður er fyrsta sveitafélagið til þess að bjóða foreldrum leikskólabarna upp á námskeið án endurgjalds. Námskeiðið er unnið í samvinnu við þróunarverkefnið Föruneyti barna – samstarfs um stuðning við uppeldi og nám á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Barna- og menningarmála ráðuneytisins. Nánar má lesa um verkefnið hér.
Skráning á námskeiðið verður auglýst síðar.
Áhugasömum er bent á að hægt er að fylgja Invest in play á Instagram og á Facebook. Einnig má finna fróðlegar upplýsingar á heimasíðu þeirra.