Running Tide hefur starfsemi á Akranesi
Bandarískt frumkvöðlafyrirtæki á sviði loftlagsmála:
Hefur starfsemi á Akranesi
Bandaríska loftslagsfyrirtækið Running Tide undirritaði í dag samning við Breið - þróunarfélag og Brim hf. um leigu húsnæðis undir aðstöðu fyrir rannsóknir og framleiðslu á þörungum til kolefnisbindingar í hafi. Undirritunin er fyrsta skrefið í uppbyggingu á starfsemi fyrirtækisins á Akranesi, sem einnig horfir til þess að vera með starfsemi á Grundartanga.
Starfsemi Running Tide á Breiðinni verður í formi rannsóknar- og þróunarstarfs á sviði líftækni en fyrirtækið hyggst nýta þá þekkingu sem það hefur aflað sér í hátækniþörungarækt og byggja upp starfsemi sína á því sviði á Íslandi. Running Tide mun strax í sumar ráða tvo sérfræðinga til starfa á Akranesi og hafa störfin þegar verið auglýst. Fyrirtækið hyggst auglýsa fleiri störf á næstunni samhliða opnun starfstöðvar sinnar á Breiðinni.
Running Tide er nýstárlegt fyrirtæki sem þróar og nýtir tækni og aðferðir sem örva náttúruleg ferli sjávarins í að grípa, binda, og geyma kolefni til langs tíma. Hluti lausnarinnar sem Running Tide vinnur að byggist á að rækta stórþörunga sem binda kolefni í stórum stíl á sérhönnuðum baujum á hafi úti. Þörungarnir og baujurnar vinna einnig gegn súrnun sjávar. Lausnir fyrirtækisins á sviði kolefnisbindingar bæta þannig lífríki hafsins og skila ávinningnum til sjávarplássa og vistkerfa heimsins. Þróun og framleiðsla á þörungunum sjálfum verður staðsett á Akranesi. Forsvarsmenn fyrirtækisins telja að Ísland hafi alla burði til að verða miðstöð kolefnisbindingar í heiminum.
Running Tide var stofnað fyrir fimm árum síðan í Bandaríkjunum en er nú að hefja starfsemi hér á landi fyrir milligöngu Transition Labs sem kynnt var nýlega. Kristinn Árni L. Hróbjartsson er nýráðinn framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi.
Kristinn Árni L. Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide: “Þær viðtökur sem við höfum fengið á Akranesi hafa verið afar fagmannlegar og jákvæðar. Forsvarsfólk Breiðarinnar hefur skýra sýn og ljóst er að þau vilja laða að sér ýmsa nýstárlega starfsemi sem á framtíðina fyrir sér. Starfsemi sem býr ekki einungis til ný störf heldur hefur auk þess jákvæð áhrif á umhverfið. Á Akranesi höfum við aðgengi að reynslumiklu vinnuafli og landfræðileg staða sveitarfélagsins og hafnarinnar á Grundartanga hentar okkar áætlunum afar vel.”
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness: „Við höfum átt gott samtal við Running Tide um nokkurt skeið og erum mjög spennt fyrir hugmyndafræði fyrirtækisins og fyrirhugaðri starfsemi þeirra á Akranesi og Grundartanga. Loftslagsmál og lífriki sjávar eru forsenda farsællar framtíðar og við erum stolt af því að Akraneskaupstaður, Breiðin, Faxaflóahafnir og Brim geti stutt við þessa nýsköpun með því að leigja Running Tide húsnæði og aðstöðu. Á Akranesi er að finna þekkingu og reynslu á fjölmörgum sviðum sem getur nýst þessari starfsemi. Þekkingu sem skapast hefur með þeirri atvinnustarfsemi sem verið hefur í bænum í gegnum tíðina. Akranes vill gjarnan leika veigamikið hlutverk í því mikilvæga verkefni að bregðast við loftslagsvandanum og við erum stolt að það starf sem hefur verið unnið í Breið þróunarfélagi hafi náð að fanga athygli þessara öflugu frumkvöðla og tæknifjárfesta hjá Transition Labs og Running Tide. Til framtíðar sjáum við tækifæri til þess að verða miðstöð frumkvöðlastarfsemi á sviði loftlagsmála. Við fögnum því skrefi sem nú er tekið og hlökkum til að fylgjast með Running Tide í þeirra mikilvægu vegferð að berjast við þá loftlagsvá sem að heiminum steðjar.“
Inga Jóna Friðgeirsdóttir, fjármálastjóri Brims hf. og stjórnamaður í Breið þróunarfélag: „Með þátttöku í starfsemi Breiðarinnar vill Brim stuðla að atvinnuþróun á athafnasvæði félagsins á Akranesi. Það er ánægjulegt að rótgróið sjávarútvegsfyrirtæki eins og Brim stígi þetta skref með framsæknu tæknifyrirtæki á borð við Running Tide sem vinnur að því að styrkja og efla lífríki sjávar og þá um leið heimsins alls. Brim býður Running Tide velkomið á Breiðina.”
Þess má að lokum geta að í lok júní hyggst Akraneskaupstaður boða til opins íbúafundar með Marty Odlin, stofnanda Running Tide, þar sem hann mun fjalla um fyrirtækið, skýra frá áhuga þess og áformum á Akranesi og svara spurningum bæjarbúa.
—
Nánar um Running Tide:
Running Tide var stofnað af Marty Odlin, fjórðu kynslóðar sjómanni, í Maine í Bandaríkjunum.Fyrirtækið hannar, smíðar og setur upp kerfi sem örvar náttúrulega eiginleika hafsins til að farga kolefni, snúa við súrnun sjávar og endurheimta vistkerfi við strendur hafsins. Running Tide á í samstarfi með leiðandi kolefnisförgunarkaupendur eins og Stripe og Shopify, og leiðandi stofnanir á sviði loftslags- og hafvísinda á borð við The Center for Climate Repair í Cambridge, Ocean Visions og Roux Institute við Northeastern University. Kristinn Árni L. Hróbjartsson er framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi.
Nánar um Transition Labs:
Transition Labs leitar uppi framúrskarandi erlend loftslagsverkefni, aðstoðar við að koma þeim á legg hér á landi og auðveldar þeim að skala fyrirtækin upp í rekstrarhæfa stærð. Stofnendurnir eru Davíð Helgason og Kjartan Örn Ólafsson og stefna þeir að því að gera Ísland að suðupotti loftslagsverkefna á heimsvísu.