Umhverfisviðurkenningar 2017
Afhending umhverfisviðurkenninga fyrir árið 2017 fór fram þann 6. desember síðastliðinn í bæjarþingsal Akraneskaupstaðar. Einar Brandsson formaður skipulags- og umhverfisráðs gerði grein fyrir vali ráðsins á þeim einstaklingum og stofnunum sem fengu umhverfisviðurkenningar í ár. Veittar voru viðurkenningar í flokkunum falleg einbýlishúsalóð, snyrtileg fyrirtækjalóð, hvatningarverðlaun og tré ársins.
Í flokknum ,,falleg einbýlishúsalóð“ varð fyrir valinu lóðin við Dalsflöt 1. Þar búa þau Unnur Guðmundsdóttir og Valur Heiðar Gíslason. Í umsögn nefndarinnar segir meðal annars: „Unnur og Valur hafa lyft grettistaki á skömmum tíma á Dalsflöt 1. Þau hafa sinnt viðhaldi og umhirðu húss og lóðar frá upphafi með miklum sóma og eru öðrum til mikillar fyrirmyndar. Útfærsla lóðarinnar er sérstaklega áhugaverð fyrir þær sakir að tengingin á milli einka- og almenningsrýmis er afar vel heppnuð. Fjölbreytt val fjölæringa og þekjuplantna, runna- og trjágróðurs eykur sjónræn gæði göturýmis í lit og formi og er gott mótvægi við „sjónsteyptan“ vegg sem veitir aftur íbúum skjólgott og afmarkað útirými.
Í flokknum ,,snyrtileg fyrirtækjalóð“ hlaut Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi viðurkenningu og kemur fram í vali ráðsins að Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur verið framúrskarandi þegar kemur að viðhaldi og umhirðu bygginga og lóða sinna og eru öðrum til mikillar fyrirmyndar. Aðkoma lóðar er opin úr öllum áttum, gróðurval er einfalt og lóðin vel hirt. Bekkir og rusladallar eru ágætlega staðsettir og það er aðgengi fyrir alla. Hönnun lóðarinnar er einföld en býður þó upp á fjölbreytta sjónræna hluti. Limgerði og stígar liggja á áhugaverðan hátt í gegnum lóðina, einföld lýsing á húsvegg gerir mikið fyrir árstíðabundna upplifun, fallegt útilistaverk er mikil prýði og laðar að alla aldurshópa, hlaðinn veggur á bílastæði og hlaðnar eyjur með fláa brjóta upp sléttan stóran flöt.
Í flokkun „hvatningarverðlaun“ var ákveðið að veita Hallveigu Skúladóttur og Stefáni Jónssyni viðurkenningu fyrir endurbætur á Mánabraut 9 og Mánabraut 11. Í umsögn nefndarinnar kemur fram að um er að ræða endurgerð tveggja ólíkra húsa af virðingu fyrir upprunalegum byggingarstíl. Heilmúrun eða einangrun og litaval á Mánabraut 11, sem var í mikilli niðurníðslu, er vel heppnað og næmi fyrir smáatriðum í handriðum og gluggaumgjörð á báðum húsum slær frísklegan hvatningartón í götu sem er á framtíðar miðsvæði og býr yfir miklum tækifærum.
Í ár ákvað Akraneskaupstaður að veita umhverfisverðlaun fyrir tré ársins í annað skipti og fyrir valinu varð einkar fallegur hlynur við Vesturgötu 42. Íbúar og eigendur lóðar við Vesturgötu 42 eru í dag Steinþóra Guðrún Þórisdóttir og Baldvin Kristjánsson og Magnús Vagn Benediktsson. Hlynurinn stendur fyrir aftan húsið á Vesturgötu, þétt upp við mosagróinn vegg sem afmarkar lóðamörkin á milli Vesturgötu 42 og Vitateigs 1. Líklegast er um garðahlyn að ræða og eru einhverjar tilgátur um að hann hafi verið gróðursettur um 1958, en þá bjuggu í húsinu hjónin Niels Finsen og Jónína Finsen. Tréð er einstofna, fallegur einstaklingur og fyllir trjákrónanna nær alla lóðina og yfir á þá næstu. „Algjört augnakonfekt, stórt og kröftugt. Því miður sést það ekki frá götu en við í aðliggjandi lóðum baka til við húsið njótum fegurðar þess“ var m.a. sagt um tréð þegar það var tilnefnt. Hlynurinn á Vesturgötu sýnir vel að fjölbreyttar tegundir þrífast í bænum. Íslendingar þekkja helst garðahlyn sem hefur verið ræktaður í görðum á aðra öld. Tegundin fær á sig stóra og hvelfda krónu og því þarf að búa henni gott rými og hugsa til þess frá upphafi svo hún njóti sín til fulls.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri afhenti þeim sem fengu viðurkenninguna skilti til að setja utandyra ásamt viðurkenningarskjali og gjafabréfi til kaupa á ávaxtatré hjá Jóni Guðmundssyni garðyrkjubónda á Akranesi.
Akraneskaupstaðar óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af þeim lóðum og tré sem hlutu umhverfisviðurkenningu.