Vel heppnaður fundur bæjarstjórnar unga fólksins
Þann 17. nóvember kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í 19. sinn og vegna aðstæðna fór hann fram í fjarfundi. Á fundinum ásamt bæjarstjórn unga fólksins mættu fulltrúar bæjarstjórnar, bæjarstjóri og starfsfólks skóla- og frístundasviðs. Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar stýrði fundinum. Bæjarfulltrúar að þessu sinni voru Jóel Þór Jóhannesson f.h. nemendaráðs Grundaskóla, Hanna Bergrós Gunnarsdóttir f.h. Arnardalsráðs, Ísak Emil Sveinsson f.h. nemendafélags Brekkubæjarskóla, Helgi Rafn Bergþórsson f.h. Tónlistarskóla Akraness, Gylfi Karlsson f.h. nemendafélag Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, Helena Rut Kára dóttir fulltrúi ungmenna með fötlun, Guðjón Snær Magnússon fulltrúi ungmenna 20 ár og eldri og Ísak Örn Elvarsson fulltrúi Íþróttabandalag Akranes. Þessir fulltrúar eru allir í Ungmennaráði Akranes.
Venja hefur verið í undirbúningi fyrir fundinn er að halda málþing en þetta árið var það ekki í boði en í staðinn fór fram rafræn könnun meðal ungmenna. Niðurstaða hennar voru notaðar við undirbúning erinda fundarins. Margar góðar ábendingar og tillögur komu fram í könnunni.
Erindi bæjarfulltrúana voru fjölbreytt og tengdust m.a. andlegri heilsu barna og ungmenna, umhverfismálum, Akratorgi sem miðpunkt mannlífs, aðstöðu ungmenna til listsköpunar og stefnumótun um fræðsluþörf barna og ungmenna.
Eftir framsögu ungmennanna fór fram umræða við hina eiginlegu bæjarfulltrúa og sköpuðust afar líflegar og ekki síður gagnlegar umræður. Bæjarstjóri og kjörnir bæjarfulltrúar þökkuðu ungmennunum fyrir vel undirbúin erindi og málefnalega framgöngu. Fundinum var streymt beint af Facebook síðu Akraneskaupstaðar. Fundargerð og upptökur af fundinum er hægt að nálgast hér.