Vitinn, félag áhugaljósmyndara fær menningarverðlaun Akraneskaupstaðar
Það er Vitinn, félag áhugaljósmyndara á Akranesi sem fær menningarverðlaun Akraneskaupstaðar árið 2015. Menningarverðlaunin eru afhent einu sinni á ári á menningarhátíðinni Vökudögum en hátíðin stendur núna yfir frá 29. október til 8. nóvember. Verðlaunin eru veitt einstaklingi eða hópi sem hefur á einhvern hátt skarað fram úr í menningarlífi Akraness. Að þessu sinni er það öflugur félagsskapur sem fær verðlaunin en félagið Vitinn, sem er fimm ára gamall félagsskapur áhugaljósmyndara, er mjög virkt í sýningarhaldi og fræðslu og öðrum til fyrirmyndar í bæjarfélaginu. Þá hefur Vitinn tvisvar gefið út ljósmyndabók sem er nokkurs konar ársskýrsla félagsins og einnig hafa félagar haldið fyrirlestra og kynningar um ljósmyndun í grunnskólum bæjarins samkvæmt samkomulagi við Akraneskaupstað. Félagsmenn eru rúmlega 70.
Verðlaunin voru afhent við opnun ljósmyndasýningar Vitans í kvöld. Það var Ingþór Bergmann Þórhallsson formaður menningar- og safnanefndar sem gerði grein fyrir vali nefndarinnar en nefndin lítur meðal annars til þess hversu virkir þátttakendur hafa verið á því ári sem verðlaunin eru veitt. Þetta er í 9 sinn sem menningarverðlaun Akraness eru veitt.
Akraneskaupstaður óskar félagsmönnum Vitans innilega til hamingju.