Staðsetning ráðhúss Akraneskaupstaðar
Síðastliðinn mánudag, 15. apríl, fengu bæjarfulltrúar tækifæri til að sitja fund á vegum Miðbæjarsamtakanna Akratorgs, þar sem rætt var um staðsetningu ráðhúss Akurnesinga og möguleika til að efla þjónustu og mannlíf í miðbænum á Akranesi. Bæjarfulltrúar vilja koma á framfæri þökkum til þeirra sem stóðu fyrir fundinum og gáfu þannig bæjaryfirvöldum og bæjarbúum möguleika á gefandi og uppbyggjandi samtali um bæinn okkar og framtíð hans.
Á fundinum fór Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar, yfir hugmyndir og áform bæjarstjórnar um staðsetningu ráðhúss í miðbæ Akraness. Því miður náðist ekki að sýna þær glærur og myndir sem fylgdu erindi Valgarðs á fundinum, en þær má finna neðst í þessari frétt. Þær hugmyndir sem bæjarstjórn hefur unnið að varðandi uppbyggingu ráðhúss á Akranesi eru í stuttu máli þessar:
- Bæjarstjórn áformar að hefja undirbúning að nýju ráðhúsi/stjórnsýsluhúsi með möguleika á leigu fyrir fleiri aðila, t.d. ríkisstofnanir. Í þessu skyni hefur bæjarstjórn unnið að því undanfarið að ná samtali við a.m.k. þrjá ráðherra í ríkisstjórn Íslands til að kynna verkefnið og fá ríkið til liðs við okkur.
- Í húsinu verði einnig könnuð hagkvæmni þess að hýsa nýja heilsugæslustöð HVE. Þegar nýr Landspítali við Hringbraut tekur til starfa, er fyrirséð að einhver verkefni munu flytjast þaðan og til þeirra sjúkrahúsa sem staðsett eru næst höfuðborginni. Bæjarstjórn vill vinna með HVE að því að sjúkrahúsið hér á Akranesi verði tilbúið til að bæta við sig verkefnum og að fyrir liggi stækkunarmöguleikar fyrir sjúkrahúsið, sem m.a. myndu skapast ef starfsemi heilsugæslu færðist á annan stað í bænum. Þannig munum við ekki aðeins styrkja í sessi grundvallarþjónustu í okkar samfélagi, heldur einnig mikilvægan vinnustað á Akranesi og stuðla að því að störfum þar fjölgi.
- Takist allt ofangreint, þá mun ekki aðeins einn vinnustaður (bæjarskrifstofur) hafa flutt í miðbæinn, heldur margir vinnustaðir sem veita íbúum fjölbreytta þjónustu. Þar að auki myndi þessi uppbygging auka líkurnar á því að ýmis þjónusta á vegum ríkisins haldist í bænum og störfin sem sú þjónusta skapar haldist eða þeim jafnvel fjölgi.
- Bæjarstjórn vill jafnframt velta upp öllum möguleikum sem uppbygging þessa húsnæðis getur skapað til að bæta þjónustu bæjarins við íbúa, s.s. með uppbyggingu menningar- og sýningarrýmis í húsinu og jafnvel flutningi fleiri þátta í þjónustu kaupstaðarins í þetta hús, en eingöngu starfsemi bæjarskrifstofunnar sjálfrar.
Mikilvægur reitur við Mánabraut
Hugmynd bæjarstjórnar er að nýtt stjórnsýsluhús rísi á Mánabraut 20, þar sem skrifstofuhús Sementsverksmiðjunnar stendur í dag. Það hús sem rísa mun á þessari lóð kemur til með að gegna lykilhlutverki í því að tengja nýja byggð á Sementsreit við gamla miðbæinn og Akratorg. Aðeins eru tæplega 150 metrar frá Akratorgi að Mánabraut 20 og það skipulag sem er í gildi fyrir Sementsreit gerir ráð fyrir því að á þessu svæði, á milli Mánabrautar og Faxabrautar rísi miðbæjarbyggð með verslunar- og þjónusturýmum auk þess að neðan Mánabrautar 20 er gert ráð fyrir opnu almenningsrými eða torgi í núverandi skipulagi. Í þessu húsi, þar sem gamli bærinn mætir þeim nýja, vill bæjarstjórn staðsetja þjónustu Akraneskaupstaðar.
Nokkuð er síðan bæjarráð ákvað að setja Landsbankahúsið við Akratorg ásamt næstu lóð, Suðurgötu 47, í söluferli. Útfærsla söluferlisins er nú á lokametrunum, en þar er m.a. gert ráð fyrir því að við mat á tilboðum vegi hugmyndir um útfærslu uppbyggingar og hvernig hún styðji við mannlíf og þjónustu í miðbænum á móti því verði sem boðið er. Það er ljóst að þarna er ekki verið að selja gamla Landsbankahúsið til niðurrifs, heldur til endurnýjunar í tengslum við uppbyggingu á nærliggjandi lóð. Það er því ljóst að bæjarstjórn ætlar sér ekki að færa bæjarskrifstofur Akraneskaupstaðar í gamla Landsbankahúsið miðað við núverandi áform.
Í máli Valgarðs á fundinum sl. mánudag kom fram að nýtanlegt gólfrými í Landsbankahúsinu er 1344 fermetrar að stærð, sem deilist niður á þrjár hæðir og kjallara. Ljóst er að kjallarinn (324 fermetrar) verður aldrei nýttur sem vinnuaðstaða og því eru eftir ríflega 1000 fermetrar á hæðunum þremur. Ef annar rekstur yrði á jarðhæðinni, svo sem veitingarekstur eða menningarrými, þá fara allt að 329 fermetrar undir þá starfsemi.
Bæjarskrifstofurnar við Stillholt voru tæplega 1200 fermetrar og var það rými heldur farið að þrengja að starfsemi bæjarskrifstofunnar. Það er ljóst að með vexti bæjarins og síauknum kröfum um þjónustu sveitarfélaga mun starfsemi bæjarskrifstofunnar aukast til framtíðar og starfsfólki fjölga. Landsbankahúsið er því einfaldlega of lítið til að hægt sé að reka skrifstofur bæjarins þar.
Miðbærinn – að mörgu skal hyggja
Í nýju aðalskipulagi sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili, sem og í nýsamþykktri heildarstefnu Akraneskaupstaðar, hefur miðbærinn á Akranesi verið rækilega skilgreindur með Akratorg sem miðpunkt. Bæjarstjórn hagar öllum sínum áformum og ákvörðunum í samræmi við það og nefna má að skipulags- og umhverfisráð hefur að undanförnu hafnað umsóknum á miðbæjarsvæðinu þar sem óskað hefur verið eftir að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir. Þá hefur Akratorg meðvitað verið gert að miðpunkti alls viðburðahalds á vegum bæjarins síðustu ár, s.s. írskra daga, 17. júní og fleiri viðburða.
Auk uppbyggingar á ráðhúsi við Mánabraut sem tengi miðbæinn við Sementsreit og höfnina, vinnur bæjarstjórn nú að fleiri verkefnum sem vonandi munu verða til þess að lyfta upp miðbænum okkar og laða þangað þjónustu, mannlíf og gleði. Þar má nefna að í verkefninu „Okkar Akranes“ sem hleypt var úr vör á síðasta ári, hlaut hugmyndin „Ævintýragarður á Merkurtúni“ flest atkvæði í kosningu íbúa. Þegar hafa þrjár hönnunarstofur verið fengnar til að setja fram tillögur eða frumhönnun að verkefninu og ein tillagan hefur verið valin til frekari útfærslu. Frétt um ævintýragarðinn á Merkurtúni birtist á vef Akraneskaupstaðar 7. desember síðastliðinn.
Einnig er nú unnið að endurhönnun Kirkjubrautar milli Stillholts og Merkigerðis, með það að markmiði að draga saman gráa og breiða götuna sem þar liggur, gera hana straumlínulagaðri og fallegri en nú og auka um leið rými fyrir gróður og gangandi og hjólandi vegfarendur. Markmiðið með þessu verkefni er að gera aðkomuna að miðbænum okkar fallega og aðlaðandi þannig að enginn sem fer um þessa götu velkist í vafa um það að nú nálgist viðkomandi hjarta þessa fallega bæjar.
Markmiðið með sölu Landsbankahússins er að koma húsinu í hendur áhugasamra aðila sem vilja gera það upp og glæða það lífi með fjölbreyttri starfsemi, um leið og tækifæri gefast til að byggja bæði þjónustu- og íbúðarhúsnæði á lóðinni við hlið þess. Það umtal sem verið hefur um húsið og greinileg væntumþykja Skagamanna til þess gefa okkur enn meira tilefni til að ætla að húsið geti verið spennandi fjárfestingarkostur fyrir réttan aðila.
Allar þær aðgerðir sem hér eru nefndar miða að því að glæða miðbæinn lífi og fjöri, enda verður það ekki gert með einhverri einni einstakri aðgerð heldur með samspili margra aðgerða. Bæjarstjórn hvetur Akurnesinga til að vera vakandi fyrir öllum tækifærum sem geti orðið til að bæta og fegra mannlífið í miðbænum, og ekki síður að vera dugleg að sækja þá viðburði og nýta þá þjónustu sem þar er í boði. Þar sem fólk kemur saman, þar er fjör!
Hugmyndir og áform bæjarstjórnar um staðsetningu ráðhúss í miðbæ Akraness - Glærur Valgarðs Lyngdal Jónssonar:
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember