Akranes tekur forystu í leikskólamálum
Capacent Gallup gerir árlega þjónustukönnun meðal 19 stærstu sveitarfélaga landsins. Úrtakið er um 8000 þúsund manns og svörun í kringum 60-70%. Markmiðið er að kanna ánægju íbúa með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á ásamt breytingum frá fyrri mælingum. Þau sveitarfélög sem taka þátt eru Akranes, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Akureyri, Reykjavík, Hveragerði, Fljótsdalshérað, Hafnarfjörður, Kópavogur, Ísafjarðarbær, Norðurþing, Grindavík, Skagafjörður, Vestmannaeyjar, Fjarðabyggð, Borgarbyggð, Reykjanesbær og Árborg. Samkvæmt nýjustu niðurstöðu könnunarinnar um viðhorf íbúa til þjónustu kaupstaðarins á árinu 2014 er Akraneskaupstaður að taka afgerandi forystu í leikskólamálum á landsvísu. Akraneskaupstaður fær 4,5 stig af 5 mögulegum. Á undanförnum árum hefur Akraneskaupstaður deilt fyrsta til þriðja sæti í könnuninni með tveimur öðrum sveitarfélögum en tekur nú stökk upp á við.
„Þetta er mjög athyglisvert þar sem kostnaður á íbúa er einna lægstur hér á Akranesi við rekstur leikskólanna en við erum samt sem áður með næsthæsta hlutfall landsins af menntuðum leikskólakennurum" segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. Hún þakkar það afskaplega góðum stjórnendum og starfsfólki leikskólanna sem eru stöðugt að þróa starfið til að gera það enn betra. Ennfremur er góð sérfræðiþjónusta á Akranesi sem leikskólarnir njóta góðs af.
Niðurstöður Akraneskaupstaðar í þessari könnun eru með þeim betri sem bæjarfélagið hefur fengið síðustu ár en kaupstaðurinn er yfir meðaltali sveitarfélaga í heild í öllum málaflokkum nema aðstöðu til íþróttaiðkunar. ,,Við erum með frábær útivistarsvæði á Akranesi en það hefur verið kallað mikið eftir líkamsræktaraðstöðu“ segir Regína. Akraneskaupstaður er í fyrsta sæti í viðhorfi íbúa með þjónustu við barnafjölskyldur og deilir því sæti með einu öðru sveitarfélagi og fær 4 stig. Þá bætir sveitarfélagið sig mest varðandi ánægju íbúa með það hvernig Akraneskaupstaður sinnir menningarmálum en þar fer bæjarfélagið úr 3,6 stigum í 3,9 stig. Regína telur marga þætti vega þar inn. Tónlistarlíf hefur verið með miklum blóma og tugir tónleika verið haldnir á árinu, menningarhátíðin Vökudagar er einstaklega fjölbreytt og vel sótt og nýja Akratorgið og viðburðir í kringum það hefur mælst mjög vel fyrir.
Ánægja íbúa með þjónustu grunnskóla er einnig mikil en þar lendir sveitarfélagið í 2. sæti á landsvísu með alls 4,2 stig. Regína segir könnun sem þessa afar gott veganesti fyrir bæjaryfirvöld en hún nýtist meðal annars við gerð starfsáætlunar Akraneskaupstaðar þar sem markmiðið er að bæta þjónustuna en á sem hagkvæmastan hátt.
Fréttasafn
- 2025
- janúar
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember