Fara í efni  

Akraneskaupstaður tekur þátt í Hreyfivikunni

Hin árlega Hreyfivika UMFÍ og Sidekick hefst mánudaginn 23. maí næstkomandi. Hreyfivikan er árleg lýðheilsuherferð og hefur hún það að markmiði að kynna kosti þess að stunda hreyfingu og íþróttir. Í fyrra voru þátttakendur í Hreyfiviku UMFÍ um 40 þúsund talsins um land allt. 

Ýmislegt verður á boðstólnum fyrir Akurnesinga þessa viku:

  • Jaðarsbakkalaug býður frítt í sund fyrir þá bæjarbúa sem taka þátt í að synda og skrá niður árangur. Gestir þurfa að skrá sig í afgreiðslu sundlaugarinnar og þá lengd sem viðkomandi synti.
  • Badda hjá Heilsan mín býður íbúum í Hot yoga á þriðjudaginn kl. 16:30 og á fimmtudaginn kl. 18:15. Athugið að hér er takmarkað pláss. 
  • Sjóbaðsfélag Akraness býður íbúum með í sjósund á miðvikudaginn kl. 18.00. Hægt er að fá lánaðan útbúnað fyrir sjósund, s.s. hanska og skó en gott er að láta félagið vita fyrirfram í gegnum facebooksíðu félagsins, sjá hér
  • ,,Hreppakerlingar" bjóða í gönguferð á Háahnúk á mánudaginn kl. 20.00 og á föstudaginn kl. 17.00. Lagt er af stað frá bílaplaninu og mikilvægt að vera stundvís. 

Viðburðirnir eru einnig aðgengilegir á vefsíðu Hreyfivikunnar, sjá hér. Hafi einhver áhuga að skrá inn viðburð þar, þá getur sá  hinn sami sent póst á stjornsysla@akranes.is. 

Keppni milli sveitarfélaga - náðu í appið og vertu með!

Það geta allir tekið þátt í Hreyfivikunni og í ár er boðið uppá skemmtilega keppni á milli sveitarfélaga í gegnum heilsuleikinn Sidekick. Sidekick er einfaldur, myndrænn og skemmtilegur snjallsímaleikur, gerður af heilbrigðishugbúnaðarfyrirtækinu SidekickHealth sem stofnað var af tveimur íslenskum læknum. Leikurinn byggir á umfangsmiklu rannsóknarstarfi við Háskóla Íslands, Karolinska-sjúkrahúsið, Sænsku sykursýkissamtökin, Harvard, MIT Media Lab og Massachusetts General sjúkrahúsið í Boston. Í Sidekick skrá þátttakendur t.d. hversu mikið þeir hreyfa sig og hversu oft þeir borða ávexti eða grænmeti og sinna streitustjórn meðan á Hreyfivikunni stendur og safna þannig stigum fyrir sig og sitt sveitarfélag. Með virkni sinni í Sidekick safna notendur vatni handa börnum í neyð sem UNICEF, samstarfsaðili SidekickHealth, sér um að dreifa þar sem þörfin er mest hverju sinni. Nú þegar hafa Sidekick notendur, með heilsueflingu sinni, safnað yfir 200.000 lítrum af hreinu vatni handa börnum í neyð. 

Til að taka þátt sækja þátttakendur heilsuleikinn Sidekick í snjallsímann sinn án endurgjalds (App Store eða Google Play). Til að virkja skráninguna og keppa fyrir sitt póstnúmer og sveitarfélag skrá þátttakendur inn póstnúmerið sem þeir ætla að keppa fyrir (Akurnesingar setja t.d. inn 300). Þegar inn í Sidekick heilsuleikinn er komið er öll sú hreyfing sem fólk stundar (dans, göngutúrar, hlaup, sund o.s.frv.) skráð með afar einföldum og myndrænum hætti ásamt æfingum í mataræðis- og streitustjórn. Því meiri heilsuefling, því fleiri stig!

Akraneskaupstaður biðlar til ykkar að slást með í för þessa vikuna og safna stigum fyrir sveitarfélagið og um leið veita skemmtilegum en afar mikilvægum boðskap stuðning. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00