Fara í efni  

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um Vesturlandsveg um Kjalarnes

Á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 12. febrúar var svohljóðandi bókun lögð fram og samþykkt einróma:

„Bæjarstjórn Akraness varð fyrir miklum vonbrigðum þegar framkvæmdum við breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes var frestað í samgönguáætlun 2019-2023 og fjármunir sem ætlaðir voru til framkvæmdanna settir í önnur verkefni. Bæjarfulltrúar brugðust strax við og kröfðust skýringa frá Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, þingmönnum Norðvesturkjördæmis og Vegagerðinni.

Ekki þarf að hafa fleiri orð um ástand Vesturlandsvegar og hefur bæjarstjórn Akraness marg oft vakið athygli á þeim lífshættulegu aðstæðum sem vegfarendum þar er boðið upp á. Þess vegna var það mikilvægt að fjármagn yrði tryggt í afgreiðslu samgönguáætlunar svo framkvæmdir við Vesturlandsveg um Kjalarnes myndu ekki tefjast og að framkvæmdirnar yrðu boðnar út á þessu ári. Við því hefur nú verið brugðist, en bæjarstjórn hefði þó viljað sjá mun meiri þunga lagðan í þetta verkefni eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Bæjarstjórn Akraness ítrekar að orð skulu standa og mun fylgja þessu máli fast eftir."

Ályktunin verður send til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og þingmanna Norðvesturkjördæmis.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00