Ályktun bæjarstjórnar Akraness - Vegna hugmynda um innheimtu veggjalda í Hvalfjarðargöngum
Á fundi sínum þann 25. september 2018 sendi bæjarstjórn Akraness frá sér ályktun þar sem hún fagnaði þeim merkisáfanga, að Spölur skilaði Hvalfjarðargöngum uppgreiddum til ríkisins tuttugu árum eftir að þau voru opnuð fyrir umferð. Það að göngunum væri skilað að fullu uppgreiddum til ríkisins var lykilatriði, því það þýddi að innheimta veggjalda yrði lögð niður og við tæki rekstur á ábyrgð ríkisins eins og raunin er um öll önnur samgöngumannvirki í íslenska vegakerfinu. Í ályktun sinni brýndi bæjarstjórn jafnframt ríkið til að huga að undirbúningi nýrra Hvalfjarðarganga, þar sem núverandi göng væru komin að mörkum leyfilegs umferðarmagns.
Nú berast fréttir af því að ríkisstjórnin áformi að hefja gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum á nýjan leik árið 2023, fimm árum eftir að ríkið tók við mannvirkinu fullbúnu og skuldlausu. Þessi gjaldtaka er sögð eiga að fjármagna byggingu nýrra Hvalfjarðarganga.
Hvalfjarðargöng voru einstök framkvæmd á íslenskan mælikvarða og saga þeirra í raun merkisatburður í samgöngusögu íslensku þjóðarinnar. Ekki aðeins eru göngin fyrstu og einu neðansjávargöngin á Íslandi, heldur voru þau einnig fyrsta einkaframkvæmdin í íslenska vegakerfinu og fyrsta alþjóðlega fjárfesting sinnar tegundar í samgöngumálum á Norðurlöndum.
Þá voru Hvalfjarðargöng fyrsta framkvæmdin í samgöngumannvirkjum á Íslandi sem samið var um á grundvelli alútboðs þar sem verktakinn bar alla ábyrgð á fjármögnun verksins á framkvæmdatíma sem og tæknilega ábyrgð á framkvæmd verksins.
Síðast en ekki síst eru Hvalfjarðargöng eina vegaframkvæmd í sögu landsins sem er að fullu greidd með notendagjöldum. Það væri því sérlega ósanngjarnt að hefja að nýju innheimtu veggjalda einmitt þar.
Bæjarstjórn Akraness leggur þunga áherslu á að íbúar landsins njóti jafnræðis óháð búsetu. Frá því að Hvalfjarðargöng voru byggð hefur ríkið staðið fyrir uppbyggingu dýrra samgöngumannvirkja víða um land, svo sem lagningu jarðganga og tvöföldun vega. Þessi uppbygging hefur átt sér stað án þess að notendur þeirra mannvirkja, að Vaðlaheiðargöngum einum undanskildum, hafi þurft að greiða fyrir notkun þeirra, hvað þá fyrir framkvæmd þeirra áður en þau voru byggð. Það skýtur því skökku við að íbúar Vesturlands þurfi að greiða á ný fyrir notkun Hvalfjarðarganga, í þetta sinn til að safna fyrir nýjum göngum. Slík ráðstöfun brýtur alvarlega gegn jafnræði íbúa miðað við búsetu þeirra.
Bæjarstjórn brýnir innviðaráðherra til dáða við undirbúning nýrra Hvalfjarðarganga, sem löngu eru orðin tímabær miðað við umferðarþunga um núverandi göng, og lýsir sig reiðubúna til samtals og samvinnu um það verkefni.
Bæjarstjórn mótmælir hins vegar harðlega þeim fyrirætlunum að hefja að nýju gjaldtöku veggjalda í núverandi göngum, enda væri slík gjaldheimta hrein svik við fólk og fyrirtæki á Akranesi og annars staðar á Vesturlandi sem og alla notendur Vesturlandsvegar sem nú þegar hafa greitt þessa framkvæmd upp.
Þá hvetur bæjarstjórn ráðherra til að líta til aðferðafræðinnar við undirbúning og byggingu núverandi ganga þar sem framkvæmdin sjálf var fjármögnuð samkvæmt alútboði, en innheimta veggjalda hófst ekki fyrr en mannvirkið var fullbúið og opið fyrir umferð.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember