Ár varnarsigra, viðspyrnuaðgerða og mikillar uppbyggingar sjáanlegar í ársreikningi 2020
Ár varnarsigra, viðspyrnuaðgerða og mikillar uppbyggingar sjáanlegar í ársreikningi 2020: 133 milljón króna rekstrarafgangur og skuldir lækka um 360 milljónir króna
Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 var lagður fram í bæjarráði þriðjudaginn 15. apríl síðastliðinn og var vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fór fram þann þann 27. apríl.
Helstu þættir ársreikningsins voru svohljóðandi:
- Rekstrarafgangur samstæðunnar var 133 milljónir króna eða 105 milljónir króna betri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir.
- Skuldaviðmið er áfram mjög lágt nú 24%. Skuldir við lánastofnanir eru nú einungis 1.057 milljónir króna og hafa lækkað um 173 milljónir króna og lífeyrisskuldbindingar eru 3.775 milljónir króna og hafa lækkað um 187 milljónir króna á milli ára.
- Heildartekjur sveitarfélagsins voru 8.153 milljónir króna og voru 3,2% eða samtals 261 milljónir króna yfir áætlun.
- Veltufé frá rekstri hjá samstæðu var 9,8% af heildartekjum eða 798 milljónir króna.
- Handbært fé í árslok var 1.810 milljónir króna en lækkaði um 494 milljónir króna á árinu.
- Fjárfesting í varanlegum rekstarfjármunum voru 1.073 milljónir króna á árinu 2020.
- Afborganir langtímalána var 249 milljónir króna og greidd lífeyrisskuldbinding var 551 milljón króna á árinu.
Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 133 milljónir króna sem er 105 milljónum króna betri afkoma en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum. Það skýrist fyrst og fremst af auknum útsvarstekjum. Skatttekjur voru 173 milljónum króna hærri en á fyrra ári. Framlög Jöfnunarsjóðs lækkuðu um 25 m.kr. frá fyrra ári. Aðrar tekjur jukust um 97 milljónir króna á milli ára.
Rekstur málaflokka var í takti við fjárhagsáætlun. Heildareignir í lok árs námu samtals 14.844 milljónum króna en lækkuðu um 194 milljónir króna milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 6.449 milljónum króna og lækkuðu um 311 milljónir króna á milli ára. Langtímaskuldir lækkuðu um 173 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding lækkaði um 187 milljónir króna og skammtímaskuldir hækkuðu um 49 milljónir króna.
Rekstrarafgangur ársins var jákvæður um 179 milljónir króna fyrir A hluta og neikvæður um 46 milljónir króna fyrir B hluta.
„Markviss vinna er að skila okkur 133 milljónum króna rekstarafgangi sem er ákveðinn varnarsigur sem við erum stolt af en afar mikilvægt er að halda áfram að vera ábyrg í fjármálastjórninni og draga úr útgjaldaaukningunni á þessu ári. Ársreikningur einkennist af viðspyrnuaðgerðum til stuðnings atvinnulífi og samfélaginu, jafnframt af verulegum fjárfestingum, töluverðri niðurgreiðslu langtímalána og lífeyrisskuldbindinga og sést að fjárhagur kaupstaðarins stendur styrkum fótum. Við erum í sóknarhug og er mikil uppbygging framundan m.a. bygging nýs leikskóla í Skógarhverfi, nýs íþróttahúss við Jaðarsbakka, bygging reiðhallar, nýrrar þjónustumiðstöðvar aldraðra, umtalsverð gatna- og stígagerð og viðhald eldri gatna.
Áhrif viðspyrnuaðgerða Akraneskaupstaðar til eflingar atvinnutækifæra og stuðnings samfélaginu og hækkun launakostnaðar vegna endurnýjaðra kjarasamninga eru vel sýnileg í ársreikningnum og vex rekstarkostnaður töluvert umfram rekstartekjur vegna þessa. Við sjáum áhrif þessarar viðspyrnu að uppsveifla á Akranesi er nú sjáanleg og fóru launagreiðslur á Akranesi hækkandi seinni hluta ársins 2020 eftir samdrátt vegna Covid-19 á fyrri hluta ársins. Launagreiðslur til launþega á Akranesi lækkuðu um 727 milljónir milli ára en atvinnuleysisgreiðslur hækkuðu um 557 milljónir króna á milli ára.
Starfsfólk Akraneskaupstaðar hefur tekist á við Covid-19 heimsfaraldurinn af miklu æðruleysi og unnið magnað starf í síbreytilegum veruleika þar sem áhersla hefur verið á að halda úti eins mikilli þjónustu og mögulegt var, oft við mikla óvissu um eigið öryggi og á starfsfólk leikskóla, grunnskóla og velferðarþjónustu sérstakt hrós skilið fyrir sitt starf á liðnu ári.
Nú er mikilvægt að nýta þau sóknartækifæri sem eru í atvinnumálum og uppbyggingu því tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Frábær vinna er í þróunarfélögunum á Breið og Grundartanga. Við viljum hvetja til atvinnutengdra fjárfestinga í Flóahverfi, við Guðlaugu, á Breiðinni og á Langasandsreit. Á Breið er vinna í rannsóknar- og nýsköpunarsetri í fullum gangi og í undirbúningi breytt deiliskipulag þar sem markmið er að verði hátæknistarfsemi, heilsutengd ferðaþjónusta, hafsækin starfsemi svo eitthvað sé nefnt. Við Guðlaugu er hugmyndasamkeppni í fullum gangi og verður spennandi að sjá útkomuna. Í Flóahverfi undirbúum við nú af kappi vistvæna iðngarða og á Grundartanga eru mögnuð tækifæri til uppbyggingar gufuaflsvirkjunar, hitaveitu og framleiðslu rafeldsneytis.“ sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem fór yfir helstu niðurstöður ársreikningsins í upphafi fundarins.
Gott ár í uppbyggingu og fjárfestingum
Meðal helstu framkvæmda á árinu voru voru 383 milljónir króna í fimleikahús, 201 milljónir króna í nýja þjónustumiðstöð við Dalbraut, 84 milljónir króna vegna breytinga í Brekkubæjarskóla, 237 milljónir króna í gatnagerð og gangstíga, 43 milljónir króna í nýjan leikskóla og 31 milljónir króna í Reiðhöll Dreyra.
Helstu rekstrartölur og lykiltölur A-hlutans
EBITDA framlegð lækkar verulega milli ára og nemur 0,25% á árinu 2020 en nam 8,38% á árinu 2019. Veltufjárhlutfall er enn mjög sterkt og nemur 1,92 í árslok 2020 og er sveitarfélagið því vel í stakk búið til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu 12 mánuðum. Skuldahlutfall fer áfram lækkandi og er 84% í árslok 2020 en var 89% í árslok 2019. Eiginfjárhlutfall er í árslok 59% og hækkar um 2,0% frá árinu 2019. Veltufé frá rekstri er 11,35%.
Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga miðast meðal annars við að:
- Skuldaviðmið sveitarfélaga þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu Akraneskaupstaðar í árslok 2020 er 24%.
- Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga tilgreina einnig að rekstrarjöfnuður á hverju þriggja ára tímabili sé jákvæður og er þessi rekstrarjöfnuður hjá Akraneskaupstað jákvæður sem nemur 1.652 milljónum króna.
Fréttasafn
- 2025
- janúar
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember