Fara í efni  

Bílaumboðið Askja fyrirhugar starfsemi í Grænum iðngörðum á Akranesi

Sigrún Ágústa verkefnastjóri, Ragnar Baldvin bæjarfulltrúi, Einar Brandsson bæjarfulltrúi, Sigurður …
Sigrún Ágústa verkefnastjóri, Ragnar Baldvin bæjarfulltrúi, Einar Brandsson bæjarfulltrúi, Sigurður Páll sviðsstjóri Skipulags- og umhverfissviðs, Sævar Freyr bæjarstjóri, Jón Trausti framkvæmdarstjóri Öskju, Jónas Kári forstöðumaður vörustýringar Öskju, Valdís Eyjólfsdóttir verkefnastjóri. //Ljósmynd: Daníel Þór

Akraneskaupstaður og Bílaumboðið Askja hafa undirritað samning um lóðir í Grænum iðngörðum í Flóahverfi á Akranesi. Með samningum tryggir Askja sér aðgang að lóðum sem eru yfir 14.000 m2 að stærð og getur nú hannað húsnæði í takt við þá þjónustustarfsemi sem fyrirhuguð er á vegum fyrirtækisins á svæðinu. Áætluð starfsemi á lóðum verður meðal annars sala- og þjónusta á fólks- og atvinnubifreiðum. Í húsnæðinu verða sýningarsalir, fullkomin þjónustubygging fyrir bifreiðar ásamt þjónustu almennri við íbúa og fyrirtæki á Vesturlandi.

Markaðshlutdeild Öskju á Vesturlandi hefur verið mikil og það rekjum við til öflugra umboðsmanna okkar um árabil. Askja lítur til þessarar staðsetningar út frá mörgum þáttum. Í fyrsta lagi eru sveitarfélögin Akranes, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit sem og Vesturland allt í töluverðri uppbyggingu og mun íbúum að öllum líkindum fjölga töluvert á komandi árum sem þýðir aukin fjölda bifreiða á svæðinu. Vegasamgöngur um Kjalarnes munu styðja við þetta enn frekar og sá fjöldi íbúa svæðisins sem starfar á höfuðborgarsvæðinu mun aukast á komandi árum. Undirbúningsvinna okkar og frekari þróun á verkefninu fer nú af stað og þess vænst að hún skili góðum árangri og verði til þess að starfsemi hefjist í Flóahverfi innan nokkurra ára.

„Við hjá Öskju höfum um árabil lagt áherslu á að vinna með heimafólki á okkar markaðssvæðum og það hefur skilað góðum árangri hingað til. Með þessu skrefi verður ekki breyting þar á og við ætlum í samvinnu við heimamenn að þróa öflugt fyrirtæki sem mun þjónusta íbúa Vesturlands.

Við horfum á hið nýja Flóahverfi við Akranes sem afar spennandi uppbyggingarsvæði fyrir starfsemi okkar á Vesturlandi. Við kunnum vel við okkur að vera í útjaðri bæjarfélags þar sem olnbogarými er gott til að þróa og hanna starfsemi í takt við þarfir okkar og enn fjölbreyttari þarfir viðskiptavina okkar. Þetta tækifæri að geta hannað okkur aðstöðu í takt við breyttar þarfir viðskiptavina með rafbílavæðingu bíla og atvinnutækja í forgrunni verður áhugavert og spennandi tækifæri. Flóahverfi er grænt svæði og Askja vinnur samkvæmt ISO umhverfisstaðlinum þannig að þetta fellur vel saman við okkar framtíðarsýn um hreina og kolefnishlutlausa starfsemi. Askja hefur sett sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og er mikilvægt að starfa í bæjarfélagi sem hefur metnaðarfulla sýn á umhverfismál fyrir atvinnulíf.“ segir Jón Trausti Ólafsson forstjóri Öskju af þessu tilefni.

„Við erum stolt af því hér á Akranesi að finna verulega aukin áhuga fyrirtækja til uppbyggingar í Grænum iðngörðum á Akranesi. Það er mikilvægur gæðastimpill á vinnu okkar að Askja horfi til stefnu okkar með Græna iðngarða þar sem fara saman sjálfbærni fyrir samfélagið, góðir starfshættir fyrir starfsfólk, umhverfis- og loftlagsmál með aðlögun að hringrásarhagkerfinu og góðir stjórnarhættir. Askja hefur metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir þjónustu á Akranesi og fyrir allt Vesturland. Afar jákvætt er að Askja sé að færa út starfsemi sína sem mun vafalaust tryggja mikilvæg störf á Akranesi í samvinnu við öfluga heimamenn á komandi árum í ört stækkandi bæjarfélagi. Það er spennandi fyrir Akranes að styðja enn frekar við þau orkuskipti sem eru að eiga sér stað með rafbílavæðingu landsmanna. Í samstarfi við Öskju munum við næstu mánuði vinna að breytingum m.a. tryggja breytta aðkomu að lóðunum svo þær mæti þörfum fyrirtækisins áður en uppbygging hefst.“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness

Bílaumboðið Askja selur og þjónustar Mercedes-Benz, Kia, Honda og mun á árinu hefja innflutning á rafbílnum smart. Askja hefur verið leiðandi í sölu- og þjónustu á rafbílum. Askja er í eigu Vekra ehf. en auk Öskju er Vekra eigandi Sleggjunnar, sem er sölu- og þjónsutumboð fyrir Mercedes-Benz vörubifreiðar, Bílaleigunnar Lotus og Hentar sem sérhæfir sig í langtímaleigu fyrir fyrirtæki. Jón Trausti Ólafsson er jafnframt forstjóri Vekra. Heildarfjöldi starfsmanna Vekru er um 230 talsins og velta á árinu 2022 var um 26,5 milljarðar króna.

Bílaumboðið Askja fyrirhugar starfsemi í Grænum Iðngörðum á Akranesi. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00