Bjarni Þór Bjarnason er Skagamaður ársins
Á Þorrablóti Skagamanna sem haldið var þann 26. janúar síðastliðinn var Bjarni Þór Bjarnason útnefndur Skagamaður ársins 2018. Það var Elsa Lára Arnardóttir formaður bæjarráðs sem kynnti Skagamann ársins með eftirfarandi stökum sem Heiðrún Jónsdóttir þjónustufulltrúi á bæjarskrifstofunni orti af þessu tilefni:
Reykjavík hann flutti frá
frekar lítill Skagann á.
Búið síðan hefur hér
hann því Skagamaður er.
Listhneigðin fyrst lítil var
liðu ár, uns svo til bar
að táningurinn tók loks þar
að teikna í skólabækurnar.
Eldri samt í iðnnám fór
ekki þótti kostur stór
listgyðjunni að lifa hjá
og laun í vasann af því smá.
Seinna var þó sett í gír
saminn ævikafli nýr,
lagt af stað um litauðgar
listabrautir margslungnar.
Unnið hefur afar merk
óteljandi listaverk.
Bækur myndskreytt, safnað sér
og saman unnið járn og gler.
Þessum er til lista lagt
löngum margt, það rétt er sagt.
Kappinn málar kynstrin öll
konur, hesta og Akrafjöll.
Bjarni Þór fæddist þann 1. júlí árið 1948 í Reykjavík og hefur alið allan sinn aldur á Akranesi. Bjarni byrjaði fyrst að teikna í kringum 14 ára en leiðin lá ekki í listaskóla fyrr en um 25 ára aldur þegar hann fékk inngöngu í Myndlistaskólann eftir að hafa starfað sem vélvirki í slippnum í dágóðan tíma. Bjarni er giftur Ástu Salbjörgu Alfreðsdóttur og reka þau saman Gallerí Bjarna Þórs í hjarta Akraness á Skólabraut 22.
Bjarni var bæjarlistamaður Akraness árið 1997. Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á verkum sínum á Akranesi og víðar. Á Suðurflös við Breið, landmegin við Gamla vitann, er verk unnið úr ryðfríu stáli og gert í minningu um Hafmeyjarslysið sem varð árið 1905, rétt fyrir utan flösina. Bjarni Þór er einnig samhöfundur að útskurðarverkinu Skvísurnar við Skólabraut ásamt Guðna Hannessyni í Lykkju en verkið stendur á milli húsa þeirra. Á Elínarhöfða er verkið Tálbeita eftir Bjarna Þór Bjarnason en það var reist árið 2000 í tengslum við Reykjavík sem var þá menningarborg Evrópu.
Bjarni hefur ávallt verið boðinn og búinn til styrkja góð málefni með því að leggja til vinnu og listaverk þegar til hans er leitað og er ómögulegt að reikna út hversu mikið hann hefur með því lagt til ýmissa málefna í bænum í gegnum tíðina. Er einn fremsti listamaður Akraness fyrr og síðar og galleríið hans setur skemmtilegan svip á miðbæinn.
Akraneskaupstaður sendir Bjarna Þór hamingjuóskir með titilinn Skagamaður ársins 2018.
Fréttasafn
- 2025
- janúar
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember