Fara í efni  

Bláfáninn dreginn að húni á Langasandi

Leikskólabörn og aðrir gestir við athöfnina.
Leikskólabörn og aðrir gestir við athöfnina.

Fjölmennt var á Langasandi í dag þegar Bláfáninn var dreginn að húni í þriðja sinn. Bláfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem er veitt sem tákn um góða umhverfisstjórnun. Það var Katrín Magnúsdóttir frá Landvernd sem afhenti Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra fánann. Til að fá Bláfánann þarf baðströndin á Langasandi að uppfylla 32 skilyrði sem lúta að vatnsgæðum, umhverfisstjórnun, upplýsingagjöf og öryggi. Það eru einungis tvær aðrar baðstrendur sem hafa fengið fánann á Íslandi, Bláa Lónið og Nauthólsvík en sérstaða Langasands er að um náttúrulega strönd er að ræða. Akraneskaupstaður tekur sýni úr sjónum reglulega og hafa þau komið mjög vel út. Þá er einnig fjölmörg fræðsluverkefni unnin með börnum á öllum aldri á Akranesi í tengslum við umhverfið og Langasand.

Börn frá leikskólunum Vallar-, Garða- og Akraseli voru viðstödd fánahyllinguna og sungu m.a. lagið „Ein á báti“ eftir Valgerði Jónsdóttur á meðan fáninn var dreginn upp. Við látum textann fylgja hér með til gamans ásamt myndum sem teknar voru í dag.

Bæjarblús

Ein á báti, úti að róa,
stödd á miðjum Faxaflóa,
stefnum Skagann á.

Fyrstan lítum sandinn langa,
ljúft nú væri þar að ganga,
ösla öldurnar.

Akrafjallið yfirgnæfir,
Háihnúkur, nafnið hæfir.
Berjadalur blár.

Hér í bænum saman búa,
ungir, gamlir, allir hlúa
Akranesi að.

Hér í bænum saman búa,
ungir, gamlir, allir hlúa
Akranesi að.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00