Ný tækifæri í ferðaþjónustu: Kynningafundur fyrir Cruise Iceland
Akraneskaupstaður bauð meðlimum Cruise Iceland í heimsókn í gær til að kynna Akranes sem mögulegan áfangastað fyrir skemmtiferðaskip. Cruise Iceland eru hagsmunasamtök íslenskra hafna, ferðaþjónustuaðila, umboðsmanna skipafélaga og annarra sem tengjast móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Samtökin hafa það markmið að efla samstarf og upplýsingagjöf um skemmtiferðaskipaáfangastaðinn Ísland, bæði til innlendra og erlendra hagsmunaaðila. Meginhlutverk Cruise Iceland er að stuðla að sjálfbærum vexti greinarinnar með virðisaukningu fyrir alla hagsmunaaðila og gæta hagsmuna hennar. Samtökin hafa góða yfirsýn yfir áskoranir og tækifæri í þjónustu við skemmtiferðaskip og farþega þeirra og því verðmætt að geta leitað í reynslu þeirra. Það var ánægjulegt hve góð þátttaka og mæting var frá Cruise Iceland, hversu mikill áhugi er á Akranesi og vilji til að miðla góðum upplýsingum og ráðgjöf.
Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri, kynnti Akranes og möguleika bæjarins sem áfangastað, og í kjölfarið var Margrét Björk Björnsdóttir, fagstjóri Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands, með kynningu á vinnu sem farið hefur verið í til að stuðla að og styðja við framþróun, gæði og aukinn ávinning af ferðamálum á Vesturlandi með áherslu á móttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega. Hún fór sérstaklega yfir verkefni sem var unnið 2022 fyrir Akranes þar sem tekin var staðan varðandi vilja heimafólks fyrir mögulegri móttöku skemmtiferðaskipa og útbúnar leiðbeiningar fyrir móttöku skemmtiferðaskipa og skipagesta á Akranesi sem byggja á verkferlum og aðferðafræði frá AECO sem hefur unnið með mörgum samfélögum á norðurslóðum að gerð slíkra leiðbeininga.
Góðar og gagnlegar umræður voru eftir framsögur, um áskoranir og tækifæri, sem munu nýtast í áframhaldandi vinnu hjá Akraneskaupstað. Tilefni fundarins er meðal annars að árið 2025 lýkur framkvæmdum við lengingu á hafnarbakka í Akraneshöfn þannig að stærri skip geta þá lagst við bryggju. Akranes hefur fengið eitt og eitt skip í heimsókn síðustu ár en nú er verið að leggja vinnu í það hjá sveitarfélaginu að laða að fleiri skemmtiferðaskip vegna bættrar aðstöðu og fjölgun í skipakomum til Íslands. Þetta er spennandi tækifæri í ferðaþjónustu á Akranesi og ætlar sveitarfélagið að leggja sitt af mörkum til að undirbúa vel og hlúa að til framtíðar svo að upplifun allra verði sem best. Faxaflóahafnir munu leggja áherslu á, eftir þessar endurbætur á höfninni að auka nýtingu hennar meðal annars með því að beina skemmtiferðaskipaumferð til Akraness. Á fundinum upplýstu stjórnendur Faxaflóahafna að fyrsta bókun á komu skemmtiferðaskips árið 2026 hafði verið staðfest.
Akraneskaupstaður hefur undanfarið verið að láta sig varða, með markvissum hætti, hvernig best sé staðið að undirbúningi fyrir aukinni umferð og komu skemmtiferðaskipa. Sem dæmi þá sendi sveitarfélagið fulltrúa á skemmtiferðaskiparáðstefnu á vegum AECO í Oslo s.l. haust þar sem Akranes var kynnt sem spennandi áfangastaður. Fyrirhuguð er frekari samvinna við stjórnendur hjá Faxaflóahöfnum vegna þessa verkefnis, auk þess sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Áfangastaða- og Markaðsstofa Vesturlands eru mjög mikilvægir samstarfsaðilar Akraneskaupstaðar í þessum málum. Önnur sveitarfélög á Vesturlandi eru einnig mikilvægur samstarfsaðili og má þess geta að nýlega heimsóttu starfmenn Akraneskaupstaðar Grundarfjörð og fengu góðar upplýsingar um þeirra vegferð og lærdóm af móttöku skemmtiferðaskipa, en Grundarfjörður hefur á undanförnum árum tekið á móti vaxandi fjölda skemmtiferðaskipa.
,,Ef áhugi er hjá heimafólki að auka og efla ferðaþjónustu á Akranesi, þá er móttaka skemmtiferðaskipa góður kostur. Engin hótelgisting er enn í boði á Akranesi og því móttaka skemmtiferðaskipta gott tækifæri til að byrja að auka gestakomur á svæðið. Á Akranesi er fjölbreytt og öflug þjónusta sem getu notið góðs af heimsóknum ferðafólks. Mikið er um menningarstarfsemi og listafólk sem gæti farið í vöruþróun til að auka upplifun og vöruframboð á Akranesi". - Margrét Björk, fagstjóri Áfangastaða- og Markaðsstofu Vesturlands.
Fréttasafn
- 2025
- janúar febrúar
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember