Glæsileg Barnamenningarhátíð á Akranesi
Barnamenningarhátíð Akraneskaupstaðar stóð yfir dagana 23. maí – 31. maí. Hátíðin var styrkt af Barnamenningarsjóði Rannís og Samtökum Sveitarfélaga á Vesturlandi og færum við þeim okkar bestu þakkir.
Mikill fjöldi barna og fjölskyldur þeirra tóku þátt í hinum ýmsu verkefnum, viðburðum og smiðjum sem í boði voru. Til að tryggja öllum börnum og ungmennum aðgengi að menningarupplifun, listfræðslu og þátttöku í menningarviðburðum var frítt á alla viðburði. Markmið hátíðarinnar var að njóta og upplifa menningu barna saman. Við þökkum kærlega fyrir sýndann áhuga og góða þátttöku.
Þema hátíðarinnar í ár var SKRÍMSLI og var lögð áhersla á FJÖRURNAR okkar, náttúruperlurnar sem faðma bæinn okkar. Úr því varð til afar skemmtilegt skapandi fræðsluverkefni þar sem börn og ungmenni bæjarins sköpuðu sín eigin sæskrímsli í völdum fjörum. Við munum birta afraksturinn í næstu viku, endilega fylgist með.
Hér má nálgast myndaalbúm Barnamenningarhátíðar.
Í tilefni af Barnamenningarhátíð fengu öll börn í leik- og grunnskólum á Akranesi afhendan fræðslubækling um fjörurnar okkar og hátíðardagskrá. Einnig var komið upp skiltum í öllum fjörum sem vísa á nýja heimasíðu þar sem hægt er að fræðast um fjörurnar: https://www.skagalif.is/is/hreyfing_og_utivist/fjorurnar-okkar. Með þessu vildum við kynna fyrir bæjarbúum umhverfið okkar, fjölbreyttu lífríki og sögunni sem þar má finna og rifja upp ánægjuna sem því fylgir að fara í fjöruferðir og gleyma sér um stund. Á Langisandi, í Krókalóni, Kalmansvík, Höfðavík og Skarfavör má finna skemmtilega skrásetningu á sæskrímsla verkefnum sem elstu deildir leikskólanna, 3. – 7. bekkur grunnskólanna beggja og nemendur á unglingastigi hafa unnið í samvinnu við kennara, Þorpið og listafólk í bæjarfélaginu. Eins og áður sagði þá komum við til með að fjalla sérstaklega um afrakstur þessara verkefna og hægt verður að finna skiltin í fjörum bæjarins út sumarið í það minnsta.
Hér má sjá svipmyndir frá einni af smiðjum hátíðarinnar og brúðuleiksýningu um Gýpu.
Hátíðardagskráin í ár var með fjölbreyttu sniði og fór hún fram víðsvegar um bæinn. Hægt var að sækja hinar ýmsu fjölskyldusmiðjur svo sem skrímslaföndur, grímusmiðju, RISA Zumba, krakkajóga, listasmiðju á Langasandi, FabLab smiðju, myndlistarrýni á bókasafninu okkar og flugdrekasmiðju svo eitthvað sénefnt.
Leikskólarnir okkar fengu æðislega heimsókn frá þeim Birte og Immu sem sungu töfrandi sögu af skrímslum fyrir börnin sem tóku sannarlega undir. Ásamt því höfðu leikskólabörn færi á því að sækja smiðjurnar og brúðuleikhús með fjölskyldum sínum.
Hér sjáum við brot af skrímslunum sem Birte og Imma sungu um í stórskemmtilegum leikskólaheimsóknum.
Áslaug Jónsdóttir rithöfundur heimsótti Brekkusel og Grundasel þar sem öllum börnum í 1. – 2. bekk gafst færi á að hlusta á bókalestur upp úr bókunum hennar um litla skrímsli og stóra skrímsli ásamt því að fá tækifæri til að búa til sín eigin úrklippuskrímsli. Krakkarnir skemmtu sér konunglega og sköpuðu þau vægast sagt glæsileg skrímsli.
Hér má sjá nemendur í Brekkuseli í föndur og bókmenntasmiðju Áslaugar Jónsdóttur rithöfundar. Ljósmynd: Guðni Hannesson
Börnum í 3.-7.bekk grunnskólanna beggja bauðst að taka þátt í stórkostlegri listasmiðju í Skarfavör þar sem Tinna Royal var listrænn stjórnandi og smiðjustjóri. Vikuna áður höfðu börnin fengið kynningu frá henni og Söru Blöndal sem hannaði smiðjuna með henni. Úr varð glæsilegt skrímslahreiður í Skarfavör sem við hvetjum ykkur til að kíkja á! Ásamt því höfðu börnin færi á því að sækja fjölskyldusmiðjurnar, minecraft námskeið, hip hop dansnámskeið og hljóðfærakynningu hjá Tónlistarskólanum.
Listasmiðjan Tinnu Royal og grunskólanna í Skarfavör - Skrímsla hreiður í vinnslu! Við birtum sérstaka frétt um þetta verkefni á næstu dögum.
Unglingarnir okkar gátu valið um kvikmyndasmiðju og söngleikjasmiðju ásamt því að þeim bauðst að taka þátt í einstöku verkefni Listahátíðarinnar í Reykjavík sem ferðast um landið með götuleikhús Hringleiks og Pilkington props.
Í kvikmyndasmiðjunni sem þeir Bergur Líndal og Þórður Helgi stýrðu framleiddi hópurinn stuttmynd um Sæskrímsli í Höfðavík og hlökkum við mikið til að sýna ykkur afraksturinn.
Öflug ungmenni í kvikmyndasmiðju í Höfðavík.
Lokaviðburður Barnamenningarhátíðar fór fram þann 4. júní þegar við tókum á móti Listahátíð í Reykjavíkur sem buðu okkur upp á stórkostlegu götuleikhússýninguna ,,Sæskrímslin“ eftir Hringleik og Pilkington Props. Vegna veðurs þurfti að færa sýninguna af Akraneshöfn inn í Hafbjargarhús og tókst sýningin virkilega vel til. Enda mikið fagfólk sem tilheyrir götuleikhúsinu. Við færum starfsfólki á Akraneshöfn og Brim kærar þakkir fyrir að taka verkefninu opnum örmum.
Við munum birta sérstaka frétt um heimsókn þessa og myndaalbúm frá þessari glæsilegu sýningu á næstu vikum.
Sérstakar þakkir fá mennta- og menningarstofnanir Akraneskaupstaðar fyrir þeirra framlag til hátíðarinnar.
Hér má nálgast myndaalbúm Barnamenningarhátíðar.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember