Fara í efni  

Breytt fyrirkomulag við greiðslu og losun á úrgangi hjá Gámu.

Í nýjum samningi við Terra um rekstur á móttökustöðinni Gámu í Höfðaseli, er breyting á fyrirkomulagi við losun á úrgangi í samræmi við lög og hugmyndafræði hringrásahagkerfisins.

Hingað til hafa allir fasteignaeigendur á Akranesi greitt sameiginlega fyrir rekstur Gámu og úrgangsmeðhöndlun í gegnum sérstakt árgjald. Því fyrirkomulagi hefur nú verið hætt, og í staðinn greiða eingöngu þeir sem losa úrgang á staðnum fyrir sína ruslaferð.

Jafnframt verða klippikortin lögð af, sem þýðir að íbúar þurfa einungis að hafa greiðslukort með sér þegar þeir koma með úrgang í Gámu.

Frá og með mánudeginum 3. febrúar greiða íbúar samkvæmt nýrri gjaldskrá Terra, þar sem kostnaður ræðst af magni og flokkun úrgangs. Gjaldið verður greitt á staðnum við losun. Gjaldskráin er sambærileg gjaldskrá á endurvinnslustöðvum Sorpu á höfuðborgasvæðinu.

Afgreiðsluferli er eftirfarandi:

  1. Starfsmaður tekur á móti viðskiptavinum við inngang móttökustöðvar.
  2. Viðskiptavinir skýra frá því hvaða tegund úrgangs þeir eru með.
  3. Gjaldskyldur úrgangur er greiddur eftir rúmmáli og flokki.
  4. Greiðsla fer fram áður en úrgangur er losaður.
  5. Úrgangi er komið fyrir í réttum ílátum af viðskiptavini samkvæmt leiðbeiningum starfsmanna.
  6. Útkeyrsla er sömu leið og komið er inn.

Mikilvæg atriði til að auðvelda heimsókn þína:

  • Sýnum tillitsemi: Höldum þolinmæði, göngum snyrtilega um og tökum tillit til annarra.
  • Flokkun úrgangs: Flokkaðu úrgang áður en þú kemur á stöðina til að flýta fyrir afgreiðslu.
  • Fyrirmyndar flokkun: Slík flokkun skilar úrgangi aftur út í hringrásarhagkerfið, þar sem úrgangur fer í endurnotkun, endurnýtingu eða endurvinnslu.
  • Glærir pokar: Notaðu glæra poka til að auðvelda flokkun.
  • Virðum opnunartíma: það er með öllu óheimilt að skilja eftir úrgang fyrir utan móttökustöðina.
  • Snyrtileg losun: Taktu upp það sem fellur til hliðar við losun.
  • Öryggi: Það er óheimilt að gramsa eða fjarlægja hluti úr ílátum.
  • Reykingar eru bannaðar á svæðinu.
  • Aðstoð starfsfólks: Starfsfólk veitir leiðbeiningar en aðstoðar ekki við losun úrgangs.
  • Börn: Börn eru á ábyrgð fullorðinna.

Móttökuskilmálar

  • Úrgangi skal skila flokkuðum á móttökustöðinni.
  • Rúmmálsminnkun úrgangs leiðir til lægri gjalda, betri nýtingar á ílátum, minni aksturs og minni umhverfisáhrifa.
  • Æskilegt er að úrgangur sé í farmi sem ekki er stærri en 2m³ til að tryggja skilvirkt flæði á móttökustöðinni.

Gjaldskrá Terru fyrir Gámu er birt hér (https://www.terra.is/is/um-terra/mottokustodvar/akranes).


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00