Guðlaug á Langasandi formlega opnuð almenningi
Í dag þann 8. desember var Guðlaug á Langasandi formlega opnuð almenningi við hátíðlega athöfn. Fjölmennt var við opnunina og var það Ragnar Baldvin Sæmundsson formaður skipulags- og umhverfisráðs Akraness sem flutti opnunarræðu. Að loknum ræðuhöldum var ekkert eftir nema að vígja laugina og voru það fulltrúar skipulags- og umhverfisráðs, Ragnar, Ólafur Adolfsson og Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir ásamt Sævari Freyr Þráinssyni bæjarstjóra, Hrófli Karli Cela arkitekt frá Basalt og Elínu Sigrúnu Jónsdóttur barnabarni hjónanna á Bræðraparti sem klipptu á borða og var laugin formlega tekin í notkun. Félagar úr Sjóbaðsfélagi Akraness voru fyrstu til að skella sér í laugina ásamt öðrum gestum. Guðlaug samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og grynnri laug sem nýtur vatna úr yfirfalli efri laugarinnar. Útsýni úr lauginni er stórfenglegt, yfir Faxaflóann og til Reykjavíkur. Hæð mannvirkisins er um 6 m yfir meðal stórstreymis flóði og er gert ráð fyrir því að sjór geti flætt inn í vaðlaugina. „Hugmyndin fyrir Guðlaugu kviknaði útfrá dældum sem myndast umhverfis steina á sandinum, þannig myndast litlar náttúrulegar „laugar“ í flæðamálinu. Þessa hugmynd tókum við svo áfram og formuðum mannvirki á þremur stöllum í sjóvarnargarðinum sem hver og einn hverfist um stakan stein líkt og á ströndinni. Efst er útsýnispallur sem vísar til skipsstafns, í miðjunni er laugin sjálf sem nýtur útsýnis út á hafið og skjóls frá pallinum fyrir ofan, neðst er svo laug þar sem sjórinn og vatnið frá lauginni fyrir ofan blandast.“ Segir Hrólfur Karl Cela arkitekt hjá Basalt arkitektum.
Um framkvæmdina
Í ágúst árið 2017 var samningur undirritaður um byggingu Guðlaugar og hófust framkvæmdir strax samkvæmt hönnun Basalt arkitekta og Mannvits verkfræðistofu. Verktaki framkvæmdarinnar var Ístak ehf. og Vélaleiga Halldórs Sig ehf. var undirverktaki þeirra. Rafþjónusta Sigurdórs og Pípulagningaþjónustan ehf. sáu um rafmagns- og vatnslagnir laugarinnar og Trésmiðjan Akur kom að því að koma upp búningaaðstöðu. Fyrst var byrjað á því að grafa í grjótgarðinn fyrir undirstöðum og þær steyptar síðan mánuði síðar. Grjótgarðurinn var í kjölfarið settur aftur upp fyrir veturinn og hóf Ístak vinnu við að forsteypa einingar mannvirkisins. Framkvæmdir hófust á ný í júní síðastliðnum og lauk þeim nú á dögunum. Síðustu vikur verið tileinkaðar undirbúning vegna opnunar og öðrum verklegum þáttum sem tengjast rekstri Guðlaugar.
Forsaga Guðlaugar
Forsaga Guðlaugar á sér rætur að rekja til ársins 2014 þegar Minningarsjóður Jóns Gunnlaugssonar útvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur húsmóður frá bræðraparti á Akranesi var formlega slitið en sjóðurinn var stofnaður árið 1969. Stjórn minningarsjóðsins ákvað þar að ráðstafa samtals 14 m.kr. til uppbyggingar á heitri laug við Langasand ásamt öðrum styrkjum til samfélagsins á Akranesi að verðmæti 54 m.kr. í reiðufé og lóðum að verðmæti 66 m.kr. Tilgangur með stofnun sjóðsins var að efla mannlíf og samfélag á Akranesi og veita ungum fátækum námsmönnum á Akranesi styrki til náms sem tengdist sjávarútvegi. Með breyttum aðstæðum og atvinnuháttum á Akranesi sóttu færri um styrk úr sjóðnum en stofnendur hugðu upphaflega. Það var því einróma samþykkt í stjórn sjóðsins að leggja sjóðinn niður og ráðstafa stærstum hluta hans til málefna tengdum slysavörnum og samfélagsmálum á Akranesi. Í kjölfar styrkveitingarinnar var settur á laggirnar starfshópur skipaður af Sigurði Páli Harðarsyni sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs, Elínu Sigrúnu Jónsdóttur barnabarni Gunnlaugs og Guðlaugar, Írisi Reynisdóttur þáverandi garðyrkjustjóra og Haraldi Sturlaugssyni. Hlutverk starfshópsins var að útfæra verkefnið um uppbyggingu á heitri laug á Langasandi og skilaði starfshópurinn af sér tillögu á haustmánuðum ársins 2015.
„Guðlaug er frábær viðbót hér á Akranesi fyrir bæði heimamenn og gesti og eru við yfirfull af stolti að standa hér í dag að vígja laugina“. Guðlaug hefur verið á lista yfir þær framkvæmdir sem Akraneskaupstaður hefur viljað fara í síðustu ár og var það því mikil fengur fyrir okkur að fá 30 m.kr. styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar laugarinnar ásamt 14 m.kr. styrk frá minningarsjóði um hjónin á Bræðraparti“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri. Heildarkostnaður vegna byggingu og hönnun Guðlaugar, búningaaðstöðu ásamt fleiru nemur um 115-120 m.kr. sem er 4-8% umfram áætlun en nákvæm tala bíður endanlegs uppgjörs. Nettókostnaður Akraneskaupstaðar verður því á bilinu 71-76 m.kr.
Guðlaug verður opin í vetur alla miðviku- og föstudaga frá kl. 16-20 og laugar- og sunnudaga frá kl. 10-14. Opnunartími getur tekið breytingum og eru gestir laugarinnar hvattir til að fylgjast með upplýsingaflæði á facebooksíðu Guðlaugar hér. Laugin er gjaldfrjáls og eru búningsklefar á staðnum.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember