Jöfnunarsjóður - umsögn bæjarstjórnar Akraness á endurskoðun regluverks
Umsögn bæjarstjórnar Akraness – Varðandi gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Bæjarstjórn Akraness mótmælir harðlega framkomnum tillögum að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs og telur þær ósanngjarnar, ekki byggðar á forsendum sem studdar eru rökum í kostnaði við rekstur eða samsetningu sveitarfélaga og ganga gegn tilgangi Jöfnunarsjóðs og lagagrundvelli.
Í umsögn Akraneskaupstaðar sem send hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda kemur m.a. fram:
- Tillögur fela í sér hamfarir fyrir rekstur Akraneskaupstaðar: Akraneskaupstaður telur sig vera illa hlunnfarinn í núverandi regluverki þar sem tekjur á hvern íbúa með Jöfnunarsjóðgreiðslum eru meðal lægstu tekna allra sveitarfélaga. Akraneskaupstaður er eitt best rekna sveitarfélag landsins en rekstargjöld án afskrifta og fjármagnsliða á hvern íbúa hefur verið meðal þess sem best þekkist hjá sveitarfélögum. Framlegð Akraneskaupstaðar er undir viðmiðunarmörkum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Akraneskaupstaður hefur skilað afar hóflegum rekstrarafgangi undanfarin ár. Áhrif af 242.311.657 kr. lækkuðum framlögum í tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verður að líkja við hamfarir fyrir rekstur Akraneskaupstaðar.
- Tillögur starfshóps hvetja til skattahækkana: Það skýtur skökku við að refsa eigi sveitarfélagi sem er vel rekið og sýnir aðhald í rekstri hins opinbera. Akraneskaupstaður hefur undanfarin ár stuðlað að því að lágmarka hækkanir fasteignaskatta á íbúa og atvinnurekstur þegar fasteignamat hefur farið hækkandi. Því hefur álagsprósenta fasteignaskatta verið lækkuð ár eftir ár. Ef tillögur starfshópsins ná fram að ganga er verið að þvinga sveitastjórn að grípa til einu leiðarinnar sem er fær sem er að hækka fasteignaskatta.
- Markmið endurskoðunarinnar misheppnast að mati Akraneskaupstaðar í mikilvægum þáttum og nær ekki að fylgja eftir þróun sveitarstjórnarstigsins, styður ekki við bakið á meðalstórum sveitarfélögum sem eru með flóknar útgjaldaþarfir, hvetur ekki til sameininga sveitarfélaga og stuðlar ekki að sjálfbærni sveitarfélaga.
- Rökstuðningi starfshóps um endurskoðun regluverksins er verulega ábótavant og nær ekki markmiði um aukið gagnsæi en beiðnum Akraneskaupstaðar um aðgang að gögnum var hafnað. Stærðaróhagkvæmni lítilla sveitarfélaga samanborið við stór sveitarfélög er illa rökstudd og þarfnast aðlögunar til að ná marki sínu. Ekki er rökstuðning að finna í drögum að skýrslu starfshóps eða á fundum með starfsmönnum Jöfnunarsjóðs, í vogum og breytum sem finna má að hafa tengingu við raunverulegan tilkostnað sveitarfélaga. Byggja þau á tilfinningu og vantar inn lykilþætti sem eru mikilvægir kostnaðarliðir í rekstri sveitarfélaga t.d. mismunandi þunga sveitarfélaga í velferðarþjónustu og frístundastarfi. Dregnar eru fram staðgöngubreytur sem virðast vera ætlað að mæta pólitískum markmiðum eða sáttamiðlunum við þrýstihópa.
- Búin er til útfærsla á útgjaldastuðli sem snertir einungis Akranes af öllum sveitarfélögum í landinu. Hvernig á Akraneskaupstaður að túlka slíkt?
Leggur Akraneskaupstaður fram sex tillögur í umsögn sinni svo markmið starfshópsins um endurskoðun regluverks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga náist. Með því er von sveitarfélagsins að starfshópurinn hafi í höndunum verkfæri til að meiri sanngirni náist í dreifingu fjármuna sem taki tillit til tekjusamsetningar og verði meira í samræmi við mismunandi þjónustuþörf sem er misjöfn eftir sveitarfélögum. Bókun bæjarstjórnar Umsögn bæjarstjórnar
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember