Fara í efni  

Karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Grænland í vinaheimsókn til Íslands dagana 22.-25. apríl

Karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Grænland er væntanlegur í vinaheimsókn til Íslands dagana 22.-2…
Karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Grænland er væntanlegur í vinaheimsókn til Íslands dagana 22.-25. apríl nk. í boði Amaroq minerals.

Karlakórinn Saqqarsik frá Qaqortoq á Grænland fagnar um þessar mundir 20 ára starfsafmæli og samanstendur af kennurum, skrifstofumönnum, veiðimönnum, verkamönnum og trukkabílstjórum. Stjórnandi kórsins er Angerdla Kielsen-Olsen, sem er þekktur trúbador á Grænlandi.

Kórinn syngur tónlist úr mörgum áttum, allt frá þjóðlögum, kirkjutónlist og dægurlögum m.a. eftir stjórnandann sem útsetur flest lögin sem þeir syngja. Stundum heyrist líka í grænlenskri galdratrommu! Þeir eru rómaðir fyrir glaðværð og skemmtilegheit á tónleikum þar sem þeir skýra frá textum og sögum frá Grænlandi.

Qaqortoq er vinabær Akraness og má því segja að þeir séu að koma einskonar opinbera heimsókn. Þeir munu halda tónleika í Vinaminni, Safnaðarheimili Akraneskirkju föstudaginn 25. apríl kl. 19.30 eftir móttöku í boði bæjarstjórnar fyrr um daginn. Þar koma einnig fram Karlakórinn Söngbræður undir stjórn Viðars Guðmundssonar og Karlakórinn Smaladrengir.

Þeir munu í ferðinni einnig syngja á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi og í Skálholtskirkju á Sumardaginn fyrsta kl. 14 ásamt Smaladrengjum. (Aðgangur er ókeypis á báða þessa tónleika).

Síðasta vetrardag, þann 23. apríl koma þeir fram á árlegri sumarhátíð Söngfjelagsins í Iðnó kl. 20 en þar verður sumri fagnað að hætti Söngfjelagsins með söngskemmtun og dansleik. Þar býður Söngfjelagið vinakórnum sínum Kór Akraneskirkju ásamt hljómsveit og ýmsir gestir stíga á stokk s.s. Herbert Guðmundsson, Þokkabót, Smaladrengir og Saqqaarsik frá Grænlandi.

Miðasala á tónleikana í Iðnó er á tix.is og þar er takmarkaður miðafjöldi. Hilmar Örn Agnarsson er stjórnandi Söngfjelagsins og Kórs Akraneskirkju.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00