Ný nálgun í samstarfi sveitarfélaga
Akraneskaupstaður býður Hvalfjarðarsveit víðtækt samstarf í kjölfar höfnunar á færslu sveitarfélagamarka í desember
Í október var upplýst að Akraneskaupstaður hefði fest kaup á landi Akrakots í Hvalfjarðarsveit og fyrirhugaði lágreista byggð sérbýla á landinu sem myndi umlykja golfvöllinn á Akranesi.
Landakaupin voru kynnt fulltrúum Hvalfjarðarsveitar í september, þar sem óskað var eftir samkomulagi:
- Um færslu á sveitarfélagamörkum, á óbyggðum hluta jarðarinnar Akrakots ofanvið núverandi byggð sem eru u.þ.b. 42 hektarar.
- Beiðni um kaup eða makaskipti á hluta á landi í eigu Hvalfjarðarsveitar vegna mögulegrar uppbyggingar á svæðinu sem er mikilvæg til að gera góða vegtengingu við Akraneskaupstað.
Báðum þessum beiðnum var hafnað af fimm af sjö sveitarstjórnarfulltrúum Hvalfjarðarsveitar 14. desember sl. Kom þessi afgreiðsla verulega á óvart og þá sérstaklega í ljósi mikils samstarfs sveitarfélaganna. Fengu sveitarstjórnarfulltrúar Hvalfjarðarsveitar gögn frá Akraneskaupstað um mikilvægi þessa landsvæðis til framþróunar Akraness í góðri sátt við Hvalfjarðarsveit. Sameiginlegt skipulag á þessu svæði ætti að duga næstu áratugina.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur útilokað viðræður við Akraneskaupstað sem er staðfest með bókun þeirra í desember. Akraneskaupstaður hefur í málaleitan sinni til að fá viðræður um málið boðið Hvalfjarðarsveit samstarf. Vegna mikilægis landsvæðisins fyrir uppbyggingu Akraness hefur Akraneskaupstaður nú með nýju bréfi boðið enn víðtækara samstarf sem tilgreint er hér fyrir neðan:
- Mögulegar nýjar vegtengingar frá þjóðvegi sem býr til betri vegtengingu inn í nýtt hverfi og þéttbýliskjarna við land Kross í Hvalfjarðarsveit. Ávinningur af þessu væri að losað yrði um umferð sem nú fer um Innnesveg og verður mun betri vegtenging fyrir skólaakstur.
- Samstarf um uppbyggingu leikskóla sem myndi bæði þjóna byggð Akraness og Hvalfjarðarsveitar á þessu svæði.
- Samstarf um að börn á aldrinum 10-16 ára í Hvalfjarðarsveit geti notað frístundamiðstöð Þorpsins á Akranesi og ef áhugi væri yrði samstarfið gagnkvæmt. Ávinningur af samstarfi sveitarfélaganna á þessu sviði yrði sá að börn úr Hvalfjarðarsveit og af Akranesi myndu kynnast betur áður en kæmi að framhaldsskólaaldri sem yrði ávinningur af til lengri tíma í lífinu. Vitað er til þess að mörg börn úr Hvalfjarðarsveit hafa áhuga á að sækja félagsmiðstöðvastarfið og í ungmennahús á Akranesi.
- Samstarf um málefni fatlaðra en metnaðarfull uppbyggingaráform eru í þeim málaflokki á Akranesi til að tryggja samfélag án aðgreiningar fyrir fatlað fólk.
- Samstarf um móttöku flóttafólks en ljóst er að ekkert sveitarfélag getur skilað auðu í því ástandi sem nú er í heimsmálum.
- Aðrir snertifletir sem auka þjónustu við íbúa á svæðinu s.s. íþróttastarfi.
- Samstarf við Veitur varðandi lagnir.
- Sameiginleg vinna í skipulagi svæðanna. Hér má hugsa sér að skipuleggja heildstætt óbyggða hluta Akrakots annarsvegar og núverandi byggð Hvalfjarðarsveitar, þ.m.t. landsvæðið neðan Innnesvegar. Sjá mætti fyrir sér íbúabyggð Akranesmegin væri u.þ.b. 1.500 íbúar og sömuleiðis um 1.500 íbúar á svæði Hvalfjarðarsveitar.
- Hagræðið fyrir bæði sveitarfélögin að byggja upp sameiginlega innviði fyrir u.þ.b. 3.000 íbúa byggð er augljós báðum sveitarfélögum til hagsbóta.
- Boð um samtal um alla samstarfsmöguleika sem ávinningur gæti verið af fyrir íbúa beggja sveitarfélaga.
„Með beiðni Akraneskaupstaðar erum við að huga að langtíma þróun sveitarfélagsins sem skiptir okkur verulegu máli. Við vonum að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar endurskoði fyrri ákvörðun sína frá í desember og opni á samtal við okkur í þágu íbúa beggja sveitarfélaga. Við teljum það skyldu okkar að nýta fjármuni rétt og samstarf sveitarfélaga í því tilliti er sérstaklega mikilvægt. Viljum við með þessu stíga skref sem er umfangsmeira en þekkist almennt í samstarfi sveitarfélag, þar sem þróuð er íbúabyggð með sameiginlegum þjónustukjörnum. Jafnframt að við sameiginlega horfum til þess að stöðugt eru að aukast kröfur á sveitarfélög t.d. í skólaþjónustu, frístundastarfi, íþróttastarfi, í málefnum fatlaðra og fyrir flóttafólk. Við leggjum til stóraukið samstarf sem við trúum að skipti miklu máli til að auka gæði þjónustu fyrir íbúa beggja sveitarfélaga.“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar.
Akraneskaupstaður skorar á Hvalfjarðarsveit að opna á uppbyggilegar viðræður um málefni þetta og gefi íbúum tækifæri að koma fram sínum sjónarmiðum. Í því ljósi fylgja með bréf Akraneskaupstaðar og bréf seljenda Akrakots til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í kjölfar höfnunar erindisins í desember.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember