Öflugar myndlistarkonur í Sementsverksmiðjunni á Akranesi
Hópur myndlistarmanna hefur nú tekið stjórnstöð Sementsverksmiðjunnar á leigu til að reka þar metnaðarfullt starf. Markmið hópsins er að vinna að eflingu myndlistar og sjónlista og svo alhliða menningarstarfsemi á Akranesi. Hópurinn mun vinna að list sinni í stjórnstöðinni og vera með opnar vinnustofur til að sýna verk sín reglulega. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Bryndís Siemsen undirrituðu leigusamning þann 2. febrúar sl. en hið leigða húsnæði er hluti Sementsverksmiðjunnar að Faxabraut 11 alls 205 fermetrar sem áður var stjórnstöð, vinnurými og rannsóknarstofa. Samningurinn gildir til 31. janúar 2017. ,,Það er smátt og smátt að færast líf í húsnæði gömlu Sementsverksmiðjunnar“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri en síðastliðið haust fékk Skagaleikflokkurinn aðstöðu þar til æfinga og varðveislu leikmuna. Einnig hefur Vegagerðin tekið hluta af svokallaðri efnisgeymslu til leigu fyrir ýmis áhöld.
Að sögn Regínu er starfshópur að störfum undir forystu bæjarfulltrúans Rakelar Óskarsdóttur sem er að undirbúa tillögur varðandi framtíðarskipulag svæðisins. Í janúar í fyrra var haldinn fjölmennur vinnufundur með íbúum um framtíð reitsins sem var undirbúinn af Akraneskaupstað í samstarfi við Kanon arkitekta. ,,Skilaboðin frá íbúum voru skýr; flýtið ykkur hægt“. Við viljum hinsvegar nýta rýmin sem best þar til ákvörðun er tekin um annað“ segir Regína
Með Rakel starfa þær Bjarnheiður Hallsdóttir og Dagný Jónsdóttir í stýrihópnum. Lesa má fundagerðir starfshópsins hér og einnig fylgjast með framvindu á Sementsreitnum hér á heimasíðu Akraneskaupstaðar.
Hér að neðan eru upplýsingar um myndlistakonurnar í stjórnstöðinni:
Bryndís Siemsen stundaði nám í grafíkdeild við Myndlista- og Handíðaskólann og við Kennaraháskólann. Hún vinnur aðallega grafíkverk, teikningar og málverk og hefur sýnt haldið nokkrar sýningar á verkum sínum. Bryndís starfar sem myndmenntakennari í Grundaskóla á Akranesi. Bryndís er félagi í Sambandi Íslenskra Myndlistamanna, Félagi Íslenskra myndmenntakennara og meðlimur í List- og handverksfélagi Akraness og nágrennis og er með fjölbreyttar vörur til sölu í Gallerí Urmul á Akranesi.
Drífa Gústafsdóttir er með B.Sc í skipulagsfræði frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri frá árinu 2009, og MS.c frá sama skóla árið 2011. Hún hefur einnig lokið prófi í verkefnastjórnun APME 2014. Drífa hefur stundað nám í módelteikningu og mótun og brennslu í London og lagt stund á nám í keramikhönnun í Stars of the Arctic Ltd 2004. Hún sótti námskeið í leirmótun hjá Gyðu L. Jónsdóttur Wells og hyggur á frekara nám í myndhöggi og framleiðslu. Drífa hefur tekið þátt í ýmsum nemendasýningum á vegum MÍR en hún vinnur aðallega með leir og postulín en einnig með önnur efni.
Gyða L. Jónsdóttir Wells stundaði nám við Handíða og Myndlistaskólann í Reykjavík, Art Instruction School í USA, Sir John Cass College í London, Central School of Art í London, Konunglegu Listaakademíunni (det Konglige kunstakademi) í Kaupmannahöfn og Konunglegu Postulínsverksmiðjunni í Kaupmannahöfn. Gyða sem er Skagamaður í húð og hár hefur meðal annars haldið sýningar í Kaupmannahöfn, Vínarborg, Birmingham og á Akranesi. Gyða vinnur bæði skúlptúra og málverk, auk þess að hafa framleitt skreytingar á fjölmörgum opinberum byggingum í London og nágrenni, þar á meðal Þingshúsinu við Kings Cross. Hún hannaði líka flísar fyrir einkahöll Soldánsins af Brunei í London fyrir 11 baðherbergi. Hún átti og rak Tessera Designs í London á árunum 1980 – 1997. Það verk Gyðu sem er Skagamönnum best kunnugt er stór brjóstmynd af Haraldi Böðvarssyni og Ingunni Sveinsdóttur sem stendur við Vesturgötuna en einnig hefur hún mótað brjóstmyndir af Pétri Ottesen og Hálfdáni Sveinssyni. Gyða var með vinnustofu og sýningarsal í Brautarholti í Reykjavík ásamt fleiri listamönnum og hefur hannað fjölda mynda fyrir bókakápur og teikningar í barnabók.
María Kristín Óskarsdóttir er menntaður keramiker frá Århus Kunstakademi og kennari frá Kennaraháskóla Íslands með áherslu á íslensku og listgreinakennslu. Hún hefur einnig sótt námskeiðið Brautargengi á vegum IMPRU. Hún starfar sem kennari við Grundaskóla. María Kristín leggur áherslu á nytjahluti og listhandverk.
Þórey Jónsdóttir er starfandi myndlistarmaður og kennari í Brekkubæjarskóla á Akranesi. Hún útskrifaðist af Myndlistabraut Listaháskóla Íslands árið 2008 með BA gráðu og tók svo kennslufræði frá kennaradeild í Listaháskólans. Þórey er aðallega málari og gjörningalistakona en bindur sig þó ekki einum miðli í myndlist sinni. Þórey hefur kennt fjöldan allan af námskeiðum; olíumálun, vatnslitamálun og bæði barna- og fullorðinsnámskeið.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember