Sterkari fjárhagstaða nýtt til eflingar þjónustu við íbúa og uppbyggingu innviða í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar 2018
Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2018 og þriggja ára áætlun 2019 til 2021 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akraness í dag. Einnig var fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun samþykkt.
Í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir óbreyttu útsvari á árinu 2018, eða 14,52% og að gjaldskrár hækki í samræmi við áætlaða vísitöluhækkun neysluverðs, eða um 2,2%. Sorphreinsunar- og eyðingargjald verður óbreytt á árinu 2018 og álagningarprósentur fasteignaskatts lækka. Stofn íbúðarhúsnæðis lækkar um 14,15%, fer úr 0,3611% í 0,31% og stofn fyrirtækjahúsnæðis lækkar um 1,81% og fer úr 1,65% í 1,62%. Álagningarstofn lóðarleigu íbúðarhúsnæðis af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningnum lækkar um 62,09%, fer úr 1,055% í 0,40% og stofn lóðarleigu atvinnuhúsnæðis af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningnum lækkar um 18,65% og fer úr 1,598%, í 1,30%.
Skuldir munu áfram fara lækkandi og er m.a. gert ráð fyrir því að skuldir samstæðu við lánastofnanir munu lækka um rúmar 658 m.kr. frá árslokum 2017 til ársloka 2021 og að heildarskuldir og skuldbindingar samtals munu lækka um rúmar 434 m.kr. á sama tímabili. Akranes mun halda áfram að vera vel innan þeirra fjárhagslegu viðmiða sem gerð eru til sveitarfélaga, þ.e. að rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) verður jákvæður sem nemur 1.075 m.kr. í árslok 2017 mun nema 1.243 m.kr. í árslok 2018. Fjárhagsáætlunin gerir jafnframt ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður muni nema rúmum 983 m.kr. í árslok 2021 þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar í innviðum bæjarins á þeim tíma. Mikið afrek var staðfest 1. desember er undirritað var í fjármálaráðuneyti samkomulag sem tekjufærsla 894,8 m.kr. vegna uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum Höfða. Sérstaklega mikilvægt var að þar tókst að verja hagsmuni Akraneskaupstaðar með að tryggja endurskoðun eftir 5 ár ef lífaldur eða launaþróun hefur verið óhagfelld Akraneskaupstað. Jafnframt fékkst staðfest krafa Akraneskaupstaðar um að ríkið greiði 147 m.kr. hlut Höfða vegna breytinga á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna(A-deildir sjóðanna) sem samþykkt var um síðustu áramót og tóku gildi í júní síðastliðnum.
Skuldaviðmið sveitarfélagsins, þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hlutans sem hlutfall af reglulegum tekjum mun einnig fara áfram lækkandi samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins. Áætlað skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2017 mun nema 70,8% en hámark sveitarfélaga er 150% af reglulegum tekjum þess, fjárhagsáætlun Akranes gerir ráð fyrir því að skuldaviðmiðið fari áfram lækkandi og muni nema rúm 50% í lok árs 2021. Veltufjárhlutfall samstæðunnar er mjög sterkt og nemur 1,8 en veltufjárhlutfall segir til um hversu vel í stakk búið sveitarfélagið er til þess að mæta nauðsynlegum greiðslum á næstu 12 mánuðum og á helst ekki að vera undir 1,0 til lengri tíma litið. Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins mun þá fara lækkandi á tímabili fjárhagsáætlunarinnar í samræmi við aukna fjárfestingu en verður þó áfram yfir 1,0 og áætlað er að veltufjárhlutfallið nemi 1,3 í árslok 2021.
Meðal framkvæmda á árinu 2018 eru gatnaviðgerðir við Esjubraut frá Þjóðbraut að svokölluðu spæleggi, niðurrif Sementsverksmiðjunnar, bygging fimleikahúss, bygging frístundahúss við golfvöllinn, uppbygging á Dalbrautarreit og Skógarhverfi, framkvæmdir við Guðlaugu á Langasandi, klára hönnun Jaðarsbakkasvæðis og endurbætur í Brekkubæjarskóla svo fátt eitt sé nefnt. Áætlað er að setja um 3,1 milljarða í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fimm árum án þess að taka lán.
Að sögn Sævars Frey Þráinssonar bæjarstjóra er rekstrarafkoma ársins í ár að stefna í að vera afar góð og því mikilvægt að viðhalda þeim árangri næstu árin en nýta jafnframt til sóknar fyrir bæjarfélagið og frekari eflingu grunnþjónustu fyrir íbúa. „Sóknarfærin okkar hér á Skaganum eru gríðarleg. Til að mynda tækifæri til að fjölga íbúum með að gera nýja íbúðarreiti byggingarhæfa og með lækkun álagningarstofna fasteignaskatta ætti það að takast vel til að laða að ný fyrirtæki. Þá er gert er ráð fyrir uppbyggingu á 36 íbúðum fyrir tekjulága einstaklinga í samstarfi við Bjarg íbúðafélag og er einnig gert ráð fyrir að allt að fjórðungur af þeim íbúðum geti nýst fyrir fatlaða eða einstaklinga í félagslega kerfinu. Jafnframt er hugað að búsetukjarna fyrir fatlaða sem og uppbyggingu á aðstöðu fyrir félagsstarf aldraða. Hvað íþróttastarf varðar þá er Akraneskaupstaður að auka stuðning við íþróttastarf með hækkun tómstundaframlags og með beinum framlögum til íþrótta- og tómstundafélaga. Uppbygging fimleikahúss og íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum mun gefa aukin tækifæri fyrir eflingu íþróttastarfsins. Jafnframt er áhersla hjá bænum að efla þjónustu við bæjarbúa og viðhalda og bæta ferðamannasegla ásamt því að stíga fyrstu skref í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum. Tímarnir framundan eru afar spennandi.“
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember