Svart og hvítt á Bókasafni Akraness
Á Bókasafni Akraness stendur yfir sýning Þorvaldar Jónssonar, Svart og hvítt. Þorvaldur sýnir kalligrafíu og leturverk og er sýningin einkum ætluð til kynningar og fræðslu um þróun leturgerðar allt frá tímum skömmu fyrir Kristburð til okkar daga. Tæpt er á sögulegum þáttum til glöggvunar. Verkefnin voru megin viðfangsefni Þorvaldar í námi í skriftgrafík í Osló og voru unnin undir handleiðslu Ottars Helge Johannessen, eins kunnasta grafíklistamanns Norðmanna. Þorvaldur er fæddur í Ólafsvík árið 1942. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1964 og hóf það sama ár kennslu sem myndmennta- og skriftarkennari við Réttarholtsskóla í Reykjavík og starfaði þar allar götur til ársins 2008, að undanskildu skólaárinu 1976-77 þegar hann stundaði nám við Statens Lærarhögskole og Kunst- og håndverksskolen í Osló. Um árabil var Þorvaldur stundakennari við KÍ (síðar KHÍ) og leiðbeindi þar ófáum íslenskum kennaraefnum um skriftarkennslu. Auk þess hefur Þorvaldur sinnt fullorðinsfræðslu um árabil, m.a. á vegum Námsflokka Hafnarfjarðar, Tómstundaskólans og Mímis í Reykjavík. Hann hefur einnig unnið við skrautritun og myndskreytingar fyrir ýmsa opinbera aðila. Þorvaldur hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum. Árið 2009 hlaut hann Íslensku menntaverðlaunin sem veitt eru kennurum sem skilað hafa merku ævistarfi eða á annan hátt skarað fram úr. Í umsögn dómnefndar segir m.a.
,,Þorvaldur hefur alla tíð haft einkar skýra sýn á kennslu sína, markmið hennar og innihald og verið fundvís á leiðir til að vekja áhuga og metnað nemenda og skapa andrúmsloft vinnusemi, vandvirkni og glaðværðar. Hann hefur haldið á loft gildum klassískra og agaðra vinnubragða en jafnframt verið laginn við að ýta undir sköpunargleði nemenda og nýta sér strauma í unglingamenningu hvers tíma kennslu sinni til framdráttar. Margir nemenda hans fóru í framhaldsnám í myndlist að hans hvatningu og með hans stuðningi.
Þorvaldur var einnig umsjónarkennari og var sérstaklega laginn við að vinna með nemendum sem þurftu á sértækum stuðningi að halda. Hann lagði rækt við að kynna nemendum sínum lífið utan skólans, fara á söfn og í hverskonar kynnisferðir og fyrir allnokkrum árum hafði Þorvaldur forgöngu um það ásamt fleirum að Réttarholtsskóli hóf markvissa kennslu fyrir 10. bekkinga um ýmis þjóðfélagsmálefni líðandi stundar; stjórnmál, vinnumarkaðsmál, fjármál, menningu og listir. Þessi kennsla má með nokkrum sanni heita forveri þess sem nú er kennt við lífsleikni og ákvæði eru um í aðalnámskrá grunnskóla.
Þorvaldur hefur alla tíð lagt sig fram um að skapa persónuleg tengsl við nemendur og verið einkar laginn við að laða fram það besta í hverjum og einum. Umhyggju Þorvaldar og virðingu fyrir nemendum og velferð þeirra er við brugðið. Í frásögur er fært hversu minnugur hann er á gamla nemendur sína og áhugasamur um að fylgjast með gengi þeirra og halda við þá tengslum".
Sýningin er síðan opin á afgreiðslutíma bókasafnsins, virka daga kl. 12-18. Í október er sýningin einnig opin á laugardögum kl. 11-14.00 og býður listamaðurinn upp á leiðsögn þá daga. Einnig er hægt að panta leiðsögn. Eiginkona Þorvaldar er Margrét Ármannsdóttir og er fædd og uppalin á Akranesi.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember