Fara í efni  

Þróttur flytur starfsemi sína frá Ægisbraut í Græna iðngarða á Akranesi

Fannar Freyr Helgason verkefnastjóri, Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri, Sævar Freyr Þráinsson bæj…
Fannar Freyr Helgason verkefnastjóri, Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Helgi Þorsteinsson framkvæmdarstjóri, Valdís Eyjólfsdóttir verkefnastjóri

Akraneskaupstaður og Þróttur hafa undirritað samning um lóðir í grænum iðngörðum í Flóahverfi á Akranesi. Með samningnum tryggir Þróttur sér aðgang að tveimur lóðum sem eru samtals yfir 9.800 m2 að stærð sem gerir fyrirtækinu mögulegt að flytja og stuðla að frekari uppbyggingu í stækkandi starfsemi. Fyrirtækið er nú staðsett við Ægisbraut 2 og 4 en Akraneskaupstaður tekur þær lóðir yfir fyrir væntanleg skólamannvirki í framtíðinni.

Verktakafyrirtækið Þróttur ehf. hefur verið starfrækt í 77 ár og er með allra elstu fyrirtækjum á þessu sviði hér á landi. Hjá fyrirtækinu starfa 20 starfsmenn og eru verkefnastaða góð.

Á langri vegferð hefur fyrirtækið tekið að sér fjölþættar jarðvegsframkvæmdir, malbikun og yfirborðsfrágang t.d. gatna, gangstíga, þjóðvega og hafna ásamt tengdum verkum borð við lagnavinnu og niðurrifi bygginga. Helstu verkkaupar eru Vegagerðin, Akraneskaupstaður, Orkuveitan og Faxaflóahafnir ásamt ýmsum nálægum sveitafélögum.

„Helsta leiðarljós starfseminnar er að frágangur allra verkefna sé óaðfinnanlegur og að gefin tímamörk í útboðum haldi sér alla leið. Þessi hugmyndafræði hefur byggt upp mjög jákvætt orðspor gagnvart fyrirtækinu í gegnum árin. Það eru stöðugt gerðar meiri kröfur til fyrirtækja í umhverfismálum og er okkar sýn að vera betur í stakk búin til að mæta því til framtíðar. Sú umgjörð sem Akraneskaupstaður hefur sett í grænum iðngörðum í Flóahverfi hjálpar okkur að uppfylla þær kröfur sem okkar viðskiptavinir gera til okkar starfsemi. Með flutningi verður fyrirtækið jafnframt betur í stakk búið að sinna vaxandi starfsemi.“ segja þeir feðgar Helgi Þorsteinsson og Fannar Freyr Helgason af þessu tilefni.

„Það er afar ánægjulegt að við getum stutt við þróun mikilvægs fyrirtækis hér á Akranesi í þeirra vegferð til vaxtar. Samhliða þessu tekur Akraneskaupstaður yfir lóðir Þróttar við Ægisbraut 2 og 4 en þær eru m.a. hugsaðar undir skólamannvirki í framtíðinni. Í aðalskipulagi er heimiluð íbúabyggð við Ægisbraut en vinna við deiliskipulag fyrir svæðið hefst á næstu mánuðum.“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00