Fara í efni  

Tíunda hraðhleðslustöðin opnuð á Akranesi

Ný hraðhleðslustöð formlega vígð þann 9. júní 2015
Ný hraðhleðslustöð formlega vígð þann 9. júní 2015

Hraðhleðslustöð var formlega vígð á Akranesi  í dag þegar Ari Björnsson setti fyrsta rafmagnsbílinn þar í hleðslu. „Það er snilld að eiga rafmagnsbíl“ segir Ari Björnsson um rafbílinn sinn en hann og konan hans eignuðust sinn fyrsta rafmagnsbíl í mars sl. Ari segir hann henta vel í snattið í vinnunni á Akranesi og í höfuðstaðnum. Hann hefur nýtt sér hraðhleðslustöðvar ON í Reykjavík en oftast hleður hann bílinn heima. „Ég hélt það væri meira vesen að hlaða,“ segir Ari en helsta ástæða þess að þau skiptu yfir í rafmagn var eldsneytiskostnaðurinn. „Það er auðvelt og þægilegt að eiga rafbíl,“ bætir hann við. 

Bæjarstjórinn aðstoðar við að hlaða bíl Ara.Það var Orka náttúrunnar (ON) sem setti stöðina upp í samstarfi við Akraneskaupstað og Krónuna við Dalbraut 1 á Akranesi. Stöðin er sú tíunda sem ON setur upp. „Það er frábært að fá þessa stöð hér í bæinn. Rafmagnsbílum fjölgar hratt og það er mikilvægt að íbúum hér á Akranesi standi til boða að hlaða bílana sína í hraðhleðslu þegar þeir þurfa á að halda. Ég lít svo á að þetta séu í raun nauðsynlegir innviðir fyrir skynsamlegri samgöngumáta og skemmtilegt að fyrirtæki sem að hluta er í okkar eigu standi fyrir þessu fína framtaki,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.  

Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við IKEA í Garðabæ, í Borgarnesi, á Selfossi og við Fríkirkjuveg. Rafbílum er sífellt að fjölga hér á landi. Um áramótin var fjöldi þeirra kominn yfir 300 og samkvæmt upplýsingum frá umboðum hafa tugir bæst við á fyrstu mánuðum ársins 2015.  Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél sem ber orkukostnað rafbíla saman við orkukostnað annarra bifreiða.  Flestir rafbílaeigendur hlaða bílana sína heima eða á vinnustað sínum. Til að stuðla að öruggum frágangi hleðslubúnaðar hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00