Umsögn bæjarráðs Akraness um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020 – 2024
Á fundi bæjarráðs Akraness þann 27. mars 2019 var fjallað um bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 15. mars 2019 sem varðar áform um skerðingu á tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þar er vísað til þess að í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020 – 2024 er gert ráð fyrir að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði skert um 3,3 milljarða á árunum 2020 og 2021. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga mótmælti þessum áformum harðlega.
Eftirfarandi er bókun bæjarráðs Akraneskaupstaðar um málið:
„Bæjarráð Akraness lýsir yfir áhyggjum vegna áforma um skerðingu á framlögum ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir árin 2020-2024 um 3,3 ma.kr. á næstu tveimur árum. Bæjarráð hvetur ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga til þess að eiga í faglegu samtali og samstarfi um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
Á fundi bæjarráðs Akraness þann 16. maí 2019 er því jafnframt komið á framfæri við fjárlaganefnd Alþingis að verði fjármálaáætlunin samþykkt óbreytt þá muni það leiða til tekjutaps upp á 86,9 milljónir fyrir Akraneskaupstað á næstu tveimur árum sem þýðir m.a. minna framlag Jöfnunarsjóðs til málefna grunnskóla og málefna fatlaðra. Bæjarráð Akraneskaupstaðar leggur mikla áherslu á að öll áform um skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði dregin til baka.
Bæjarráð Akraness leggur einnig sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði:
- Greiðslur ríkisins vegna málefna fatlaðra eiga að vera í samræmi við þær lagakröfur sem settar eru um málefni fatlaðra. Tap Akraneskaupstaðar vegna málaflokksins er um 60 milljónir króna á ári og kröfurnar eru að aukast.
- Endurreisa þarf Framkvæmdasjóð fatlaðra með það að markmiði að standa undir kostnaði við úreldingu og endurnýjun búsetu- og stofnanaúrræða, verklegum framkvæmdum í aðgengismálum opinberra stofnana og til að standa undir lagaskyldu um aðlögun á vinnumarkaði vegna starfsmanna með skerta starfsgetu.
- Að starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands verði efld enn frekar. Heilbrigðisstofnun Vesturlands er neyðarsjúkrahús fyrir höfuðborgarsvæðið og hefur þegar sannað sig í hagfelldum aðgerðum eins og liðskiptum. Bæjarráð Akraness leggur áherslu á að þjónustustig stofnunarinnar verði aukið og það er m.a. hægt að gera með því að gera stofnunina að varasjúkrahúsi fyrir Landspítalann og bæta tækjakost hennar.
- Lögð er mikil áhersla á að fjögur biðrými sem rekin eru á Höfða vegna fráflæðisvanda Landspítala verði gerð að varanlegum rýmum. Slík rými kostar 146 milljónir að byggja og því er hagkvæmast fyrir alla aðila að nýta þau húsnæðisrými sem eru til staðar í dag í stað þess að láta þau standa auð og ónotuð. Bæjarráð Akraness leggur auk þess áherslu á að framlög til reksturs hjúkrunar– og dvalarheimila verði aukin og að gengið verði frá rammasamningi um þjónustu hjúkrunarheimila og einnig vegna dagdvalar aldraðra á grundvelli kostnaðarmats á kröfulýsingu velferðarráðuneytisins.
- Áhugi er innan bæjarstjórnar Akraness að gerast tilraunasveitarfélag í rekstri framhaldsskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands, með það að markmiði að tryggja samfellu í námi, allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Bæjarráð Akraness leggur áherslu á að nægu fjármagni sé veitt til framhaldsskólans og að iðn– og verknám skólans verði styrkt enn frekar.
- Bæjarráð Akraness krefst þess að fjárveitingar vegna vegaframkvæmda við Vesturlandsveg séu í takt í samþykkta samgönguáætlun og að framkvæmdir fari í gang á þessu ári. Bæjarráð Akraness ítrekar að orð skulu standa og mun fylgja þessu máli fast eftir.
- Bæjarráð Akraness fagnar því að 200 milljón króna fjárveiting hafi fengist í uppbyggingu Faxabrautar á árunum 2019 og 2020. Bæjarráð telur þetta mikilvæg fyrstu skref í átt að fullri fjármögnun ríkisins á þessari nauðsynlegu framkvæmd og bendir á að verkið er kostnaðarmetið á 550 milljónir. Bæjarráð Akraness leggur mikla áherslu á að nægt fjármagn verði tryggt til að ljúka uppbyggingu Faxabrautar, eigi síðar en á árunum 2021 og 2022.
- Bæjarráð Akraness krefst þess að samningar um sóknaráætlanir verði endurnýjaðir og að auknu fjármagni verði varið til þeirra en sóknaráætlanir landshluta hafa verið mikilvægur þáttur byggðastefnu á undanförnum árum.
- Jafnframt krefst bæjarráð Akraness þess að samningar við landshlutasamtök um almenningssamgöngur verði endurskoðaðir með það að markmiði að verja til þeirra auknu fjármagni úr ríkissjóði. Áhersla er lögð á að ríkið komi að ferjusiglingum milli Akraness og Reykjavíkur sem er mikilvægur þáttur í almenningssamgöngum milli Vesturlands og höfuðborgarsvæðisins. Uppbygging almenningssamgangna er mikilvæg loftslagsaðgerð og í þetta verkefni verður að verja fjármunum.
- Staðið verði við fyrirheit um að gistináttagjald renni til sveitarfélaga þegar á næsta ári og samið verði sérstaklega um skiptingu innheimtra tekna milli sveitarfélaga.
- Aðgerðir í umhverfismálum kalla iðulega á uppbyggingu innviða, ekki síst í úrgangsmálum. Huga þarf að leiðum til að hjálpa sveitarfélögum við að fjármagna slíka uppbyggingu og tryggja að slíkum framlögum verði úthlutað á gagnsæjan hátt.
Bókun bæjarráðs Akraness er hér komið á framfæri við fjárlaganefnd Alþingis."
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember